Horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 16:17:40 (6056)

2004-04-05 16:17:40# 130. lþ. 94.95 fundur 459#B horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða segir að auðlindin sé sameign okkar Íslendinga. Markmiðið sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu hennar og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Undir þeim lagafyrirmælum starfar auðvitað ríkisstjórnin eins og öðrum lögum sem okkur hafa verið sett.

Það er ákaflega dapurlegt að hlusta aftur og aftur, sennilega á milli tíunda og tuttugasta skiptis, á hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur, ráðherra byggðamála, tala endalaust um að vissulega sé óvissuástand í hinum dreifðu byggðum og erfiðleikar af mismunandi ástæðum. Þetta eru setningar sem maður er búinn að heyra mjög oft að hafa verið sagðar hér í hvert skipti sem talað hefur verið um vandann í sjávarbyggðunum.

Síðan er talað um að Byggðastofnun sé að búa til nýja skýrslu og að fara eigi að meta stöðu sjávarbyggðanna. Það voru búnar til skýrslur áður en kvótakerfinu fyrir smábátana var breytt sem sýndu beinlínis fram á að störfum mundi fækka um fleiri hundruð á Vestfjörðum, hæstv. ráðherra. Það getur ekki verið að lesa þurfi sama sannleikann aftur og aftur. Það er alveg ótrúlegt hvernig hæstv. ráðherrar tala um þessi mál.

Í blaðið Ægi sem ég tók með mér hingað upp skrifa fjórir þingmenn, tveir stjórnarandstæðingar og tveir stjórnarliðar. Ekki er hægt að sjá mikinn mun á skrifum þeirra. Þeir eru eiginlega allir sammála um að þetta sé kolómögulegt kerfi og algerlega vonlaus niðurstaða sem við erum að vinna í. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson segir þar, með leyfi forseta:

,,Þetta leiðir hins vegar í ljós að það er beint samband á milli kvótaþróunar, atvinnutekna og byggðaþróunar ...`` --- Auðvitað, hæstv. ráðherra, það þarf ekki að fá samþingmann minn úr ríkisstjórninni til að segja hvað er að í þessu kerfi og hér er grein eftir Kristinn Gunnarsson. Lestu hana.