Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 18:48:23 (6086)

2004-04-05 18:48:23# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[18:48]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega höfum við reynt að gera okkur grein fyrir því hver áhrifin verða af þessari breytingu fyrir alla helstu flokka ökutækja. Þeir eru vissulega margir og ég tel eðlilegt að ráðuneytið leggi fram í þingnefndinni þá útreikninga sem fyrir liggja um málið en jafnframt að nefndin afli sér sjálfstæðra útreikninga frá þeim hagsmunaaðilum sem eiga hlut að máli og hafa vissulega haft skoðanir á þessum breytingum um langt árabil.

Ég hef að vísu ekki handbært hvernig frv. breytir hag götusóparanna í Reykjavík, ég skal viðurkenna það strax. En ég tel að sjálfsögðu fráleitt að láta slíkt tæki, jafnvel þótt það fari illa út úr þessum breytingum, ráða úrslitum um hvort við innleiðum eðlilegt og nútímalegt gjaldtökukerfi á þessu sviði sem hefur ótvíræðar jákvæðar afleiðingar fyrir þjóðarbúið. Ég held að það sé mjög mikilvægt í allri umræðunni að menn reyni að hefja sig upp fyrir hagsmuni tiltekinna hópa eða tiltekinna afmarkaðra hagsmunaaðila og horfi á þetta frá sjónarmiði þjóðarbúsins alls. Frumvarpið snýst um að reyna að lækka eldsneytiskostnað þjóðarbúsins í heild sinni og við eigum í þinginu að reyna að taka höndum saman um að ná fram því markmiði. Ef hnökrar eru á því eins og það er fram sett gagnvart einstökum hópum verðum við að sjálfsögðu að skoða það allt saman en ég held að ekki sé minnsti vafi á því að breytingin í heild sinni er þjóðarbúinu hagkvæm.