Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 21:06:53 (6107)

2004-04-05 21:06:53# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[21:06]

Halldór Blöndal (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þm. að talað hafi verið um að leggja veggjald á Sundabraut upp að Geldinganesi á þeim tíma þegar ég var samgrh. í þeim skilningi að menn hafi talið það ráðlegt. Ástæðan var einfaldlega sú, eins og þáv. vegamálastjóri, Helgi Hallgrímsson, gerði mjög góða grein fyrir, að óttast var að menn héldu sig við gamla veginn ef menn þyrftu að borga veggjald með því að fara strandleiðina, Sundabraut. Af þeim sökum veltu menn fyrir sér hvort rétt væri að vera með svokölluð skuggagjöld á Sundabrautinni sem eru annars eðlis. Það er því misskilningur hjá hv. þm. ef hann telur eða heldur að Sundabrautin á þessari leið hafi verið þess eðlis að menn teldu ráðlegt að hafa veggjald á henni.

Nú hef ég ekki verið samgrh. í nokkur ár þannig að ég veit ekki hvort sjónarmið manna hafa breyst að þessu leyti, ég hef ekki trú á því. Annað er ef menn hugsa sér að fara yfir í Gunnunes þá má vera að menn veltu einhverju þvílíku fyrir sér en ég hef ekki séð ... (Fjmrh.: En í Kattarhöfða?) Ja, það var nú horfið frá því að fara Kattarhöfða, hæstv. fjmrh. Það hefði kannski verið skynsamlegt á sinni tíð. en úr því að við erum að tala um Kattarhöfða og Þyrilsey og það allt saman þá er einmitt á þeim slóðum þessi hryggur inni í Botnsvoginum sem er svo skemmtilegur því að fyrir innan hann er síldarpallurinn, fyrir innan Kattarhöfðann. Kristinn Ziemsen sagði mér frá því bara í fyrradag að hann hefði komið þarna einu sinni og gengið niður að fjörunni og þá hefði verið svo mikið af síld að hann hefði getað sópað henni upp með höndunum en við munum nú eftir Hvalfjarðarsíldinni og hún var mjög skemmtileg.