Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 21:13:00 (6110)

2004-04-05 21:13:00# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, EOK
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[21:13]

Einar Oddur Kristjánsson:

Frú forseti. Rétt er að skýra frá því í upphafi að eins og margir félaga minna þekkja hef ég lengi haft verulegar áhyggjur af þróun þungaskatts og haft miklar efasemdir um þau ráð sem menn hafa haft uppi um á hvern veg skyldi breyta honum. Ástæður mínar hafa verið alveg augljósar og hafa margsinnis komið fram á undanförnum árum. Það hefur verið rakið mjög ítarlega í ræðum í dag hvernig það mál hefur gengið fram síðustu nærri tíu árin og ég hef tekið verulegan þátt í því og eftir á að hyggja finnst mér það heilmikil vonbrigði bæði fyrir sjálfan mig og aðra að okkur hefur ekki tekist til eins og við vildum og voru þó margir að vanda sig.

Það hefur líka komið fram í dag, frú forseti, að gjald á umferð hefur aukist mjög mikið og flutningsþörf landsbyggðarinnar hefur flust yfir á vegina gagnstætt því sem menn vonuðu og það er út af fyrir sig athugunarefni í sjálfu sér hvað því veldur og hvort það geti verið að hafnirnar eða hafnasamlögin hafi á einhvern hátt fært sig út af markaðnum. Ég held að þetta sé allt rannsóknarefni.

Það hefur líka komið fram og flestir hafa verið þeirrar skoðunar og margir sagt það umbúðalaust að að sjálfsögðu sé málið þannig vaxið að það orki mjög tvímælis. Á því eru gallar og kostir og ég skal ekkert draga undan að taka undir það að öllu leyti. Það sem oftast hefur valdið mér vandræðum er mismunandi staða veganna og mismunandi staða þeirra flutninga sem menn hafa verið að flytja. Þess vegna hef ég verið með efasemdir um olíugjaldið af því að ég veit að á háum, vondum fjallvegum sem eru annaðhvort fullir af klaka, snjó eða mold og drullu er náttúrlega eyðsla bílanna ekkert í líkingu við að sem hún er á sléttu malbikinu.

En hvað um það. Það hefur margsinnis komið fram, frú forseti, og ég held að það sé mál flestra, að það sem verið er að gera núna sé framfaraspor að mjög mörgu leyti. Menn hafa fagnað því að frv. í þeirri mynd sem það er núna hafi vissulega komið mjög til móts við þau sjónarmið sem ég var að rekja, miklu frekar en nokkuð í þeim tillögum sem áður hafa verið sýndar eða farið í gegnum. Og það er rétt, mér sýnist það vera hárrétt að gjaldið, miðað við að það sé svona nokkurn veginn núllstillt miðað við flutningabílana, stóru flutningabílana, þessa 26--30 tonna bíla sem keyra með 40--45 tonn á þessum löngu leiðum, mér sýnist það passa og menn eru nokkurn veginn sammála um það.

[21:15]

Hins vegar hafa margir haft á því orð, réttilega, að með þessari breytingu væri verið að bæta hag einstaklinganna og einkabifreiðanna og mér sýnist það eiga að geta passað líka. Eigi að síður eiga heildartekjur ríkisins að standa í stað í þessu dæmi. Þá er náttúrlega spurningin: Hvernig gengur sú jafna upp? Hún gengur ekkert upp öðruvísi en svo að alltaf er verið að auka álögurnar á atvinnustarfsemina, hvort sem það er þjónustan, verslunin, byggingarstarfsemin eða framleiðslan. Það hlýtur að orka tvímælis, frú forseti, að gera slíkar breytingar, það orkar mjög tvímælis í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Ég efast a.m.k. og ég spyr þá líka: Úr því að menn eru svo sammála sem hér hefur komið fram í dag um að við séum á réttri braut gagnvart mengun og náttúruvernd væri þá ekki hægt að ganga lengra en við gerðum? Við erum að firra ríkið miklum kostnaði með því að fækka þessum mælum um að mér skilst 1/2 til 2/3 --- gátum ekki gengið lengra til þess að gera þetta enn þá hagkvæmara? Var það ekki möguleiki? Ég veit það ekki en ég vona að hv. efh.- og viðskn. taki þetta mál og skoði það mjög gaumgæfilega vegna þess að mér sýnist það alveg hugsanlegt. Mér hefur líka sýnst að það mætti alveg taka til umfjöllunar hvernig við högum þessu bifreiðagjaldi. Við erum í dag, frú forseti, að setja bifreiðagjaldið á miðað við eigin þyngd farartækjanna en spurningin er hvort ekki mætti alveg eins horfa til þess að skattleggja á hverju ári flutningsgetu þessara farartækja.

Ég held líka að það sé rétt að taka til umræðu hvað við erum að skattleggja. Þetta hefur komið fram hvað eftir annað. Erum við að skattleggja umferð --- það held ég að hafi verið sjónarmiðið síðustu áratugina, að við værum að skattleggja umferð --- eða erum við með einhvers konar orkuskatt eða mengunarskatt? Í því sambandi langar mig til að koma aðeins inn á þær brautir sem tengjast þessu, hina mörkuðu tekjustofna ríkisins. Í gegnum árin hef ég haft vaxandi efasemdir um að við værum á réttri braut með þessa mörkun tekjustofna. Með því að marka þá eins og við erum að gera erum við að rugla okkur dálítið í ríminu og við sjáum hvernig við breytum lögunum til þess að fullnusta þessa mörkun. Við eigum gríðarlega mikið af mörkuðum tekjustofnum. Við eigum milli 70 og 80 slíka skattstofna. Þetta veldur okkur vandræðum og ég held að stundum villi þetta okkur sýn þegar við erum að reyna að horfa yfir þessi ríkismál. Ég segi, og ég veit að margir eru ósammála mér, að ég er alveg orðinn sannfærður um að við eigum að hætta þessari mörkun tekjustofna. Ég veit að margir munu mótmæla mér. Við eigum að hætta því, leggja hér fram einn daginn einn langan bandorm og taka þetta allt saman í burtu. Það mundi auðvelda okkur alla sýn og alla vinnu við fjárlagagerðina, samanber hlálegt atriði í því frv. sem hér er til umræðu þegar við tökum 400 millj. úr einum sjóðnum og bætum í annan. Við erum með rúmar 2.000 millj. í bensíngjald en svo erum við með 3.800 millj. í sektarbensíngjald. Hverju skiptir þetta? Jú, við erum búin að binda okkur inn á það að sum gjöld skuli vera þarna og ekki þarna og þess vegna þurfum við að færa þetta fram og til baka.

Það er að koma annað líka til umræðu, frú forseti, með næsta máli á dagskrá, fæðingarorlofið. Þá komum við að svona bindingu, mörkuðum tekjustofnum. Hvað ætlum við að gera við tryggingagjaldið o.s.frv.? Það er angi af sama meiði. Ég tel ástæðu til í sambandi við þetta og í sambandi við vegagerðina almennt sem er einn af stærstu mörkuðu tekjustofnunum, Vegagerðin, að hugsa þessa hugsun, taka þetta bara allt saman í burtu. Vegagerð og samgöngur eru bara vegagerð og samgöngur og skattlagning er skattlagning. Þá erum við ekki bundin á klafa einhverra slíkra hugsana sem eru að þvælast fyrir okkur í dag.

Það er eitt atriði sem ég vil taka undir sem kom fram í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar varðandi vandamál landsbyggðarinnar. Við höfum nefnilega verið að fjalla um þessi mál í einstaka tilfellum. Það eru mjög vond mál sem segja frá ákveðnum afskekktum sveitum þar sem er ófært eða umferðartakmarkanir eru miklar vegna þessara vondu vega, það eru þungatakmarkanir o.s.frv. þar sem flutningsbílar, dísilbílar, hafa farið mjög illa út úr þessu gjaldi. Við höfum margsinnis farið yfir þessi einstöku fáu tilvik en niðurstaðan hefur alltaf verið sú að það hefur ekki verið nein smuga í lögunum til að víkjast undan þessu. Því vil ég beina því til hv. efh.- og viðskn. hvort ekki væri tækifæri núna til að koma inn einhverjum slíkum möguleika úr því að við erum að fjalla um þetta og gera þá kleift að grípa til einhverra þeirra aðgerða þegar svona kemur upp sem hefur valdið okkur vandræðum og heilmikilli skömm.

Ég vona sem sagt að hv. efh.- og viðskn. taki þetta mál til ítarlegrar skoðunar. Það er ekki einhlítt hvernig þetta er, langt frá því, og við verðum að passa okkur mjög mikið í þessu. Ég heyrði hæstv. fjmrh. segja í dag að að sjálfsögðu gæti verið að við þyrftum að taka þetta mál upp og ég fagna þeim ummælum hans vegna þess að þessu er ekkert lokið. Þetta er mjög viðkvæmt mál og erfitt viðureignar. Ég hef margsinnis sagt við félaga mína að ég vissi ekki alveg hvaða nauð væri að reka okkur til þessa núna, hvort það væri þörf á því. Við vitum að það getur verið ný tækni til að fylgjast með flutningatækjum á næsta leiti og það er þegar farið að gera það víða, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, en ég sem sagt hvet alla menn til þess að fara mjög varlega og skoða öll sjónarmið varðandi þetta áður en við göngum endanlega frá frv.