Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 14:49:15 (6141)

2004-04-06 14:49:15# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Enn og aftur vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir heiðarleika, fyrir að hann skuli gera það skýrt að þessir kaflar í ræðu hans áttu ekkert erindi í þennan sal. Auðvitað kæmi ekki nokkrum manni í þessum sal til hugar að það væri vit í að setjast að samningaborði með Osama bin Laden og al Kaída. Það er ágætt að hann skuli gera það skýrt að sú brýning hans í þessari umræðu var fullkomlega óþörf, hafði nákvæmlega ekkert gildi í umræðunni. Það er ekki óeðlilegt að menn færu að velta því fyrir sér hvers vegna hann eyddi öllu þessu púðri í að hinir og þessir ónefndir létu sér til hugar koma að setjast niður með þessum glæpamönnum.

Nú er skýrt að þetta var allt á misskilningi byggt og hefði mátt sleppa þessum kafla í ræðu hans. Þetta er ekki, eins og unglingarnir mundu segja, ,,issue`` í umræðunni.

Herra forseti. Barnaskapur og ekki barnaskapur, við skulum láta það liggja milli hluta. Ég segi enn og aftur án þess að ég ætli að fara að gefa hæstv. ráðherra einkunn fyrir þessa ræðu sína: Hann hefði betur varið meiri tíma í samningu hennar og horft víðar yfir en hann gerði. Þar var allt of þröngt sjónarhorn og of stríður tónn til að það mætti verða sem hann í öðru orðinu óskaði sér, að hér mundi nást víðtæk, góð og traust samvinna um öll grundvallargildi íslenskra utanríkismála.

Það er auðvitað mjög mikilvægt. Á okkur í Samf. hefur ekki staðið. Það hefur hins vegar stundum vantað upp á að hæstv. ríkisstjórn væri tilbúin að taka í útrétta sáttarhönd þegar kemur að veigamiklum atriðum á borð við mikilvægt samstarf um lágmarksskilgreindan viðbúnað á Keflavíkurflugvelli.