Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 17:04:44 (6172)

2004-04-06 17:04:44# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[17:04]

Sólveig Pétursdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. um að við þurfum að vera viðbúin öllu og hafa augun opin fyrir því sem er að gerast í kringum okkur. En það er hins vegar svo að við erum enn þá aðilar að NATO þannig að við erum með þessi Norður-Atlantshafstengsl í gegnum varnarbandalagið. Þau tengsl, Norður-Atlantshafstengslin, hafa verið einn af grundvallarþáttunum í utanríkisstefnu Íslendinga.

Þegar hv. þm. talar um það hins vegar að við þurfum að hafa augun opin og eigum að líta til Evrópusambandsins í þessu sambandi hlýt ég að minna enn og aftur á orð sérfræðings sem kom frá Evrópusambandinu og flutti hér merka ræðu um þessi mál þar sem hann hélt því fram, hv. þm., að Evrópusambandið gæti ekki tekið að sér varnir Íslands og það gæti heldur ekki tryggt varnir sinna eigin ríkja, ríkja sem væru innan bandalagsins. Ljóst er að það eru mjög fámennar hersveitir þjónandi í ríkjum innan Evrópusambandsins og ef ég man rétt eru það aðeins nokkur þúsund manns. (Gripið fram í.) Hvaða tölu hann nefndi, hvort það voru 14 eða 18 þúsund manns sem mögulegt væri að senda yfir hafið í sérstakar alþjóðlegar aðgerðir. Að hans mati var það því alveg ljóst að þetta væri fráleitur möguleiki.