Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 18:03:23 (6187)

2004-04-06 18:03:23# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Herra forseti. Til að gefa hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni tækifæri til að nýta páskana vel og það átta daga hlé sem verður á þingfundum mun ég reyna að bregðast þannig við að hann fái Evrópubók Samf. fyrir páska þannig að hann geti kynnt sér málið rækilega og lesið sér vel til. Einnig ætti hann að fá ekki síður fræga verðlaunaræðu hæstv. utanrrh. þar sem þetta kom ákaflega vel fram. Þess vegna er þessi aðlögun ekki meiri fjarstæða en svo að hún var kjarninn í Berlínarræðunni frægu, ræðu hæstv. ráðherra utanríkismála. Það er ekki meiri fjarstæða en svo.

Kjarni málsins er sá að sameiginleg sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins gengur út á sameiginlega nýtingu sameiginlegra stofna innan sameiginlegrar efnahagslögsögu. Sá er kjarni málsins. Við höfum enga sameiginlega stofna með Evrópusambandinu og það sem skiptir mestu máli er að við höfum enga sameiginlega efnahagslögsögu. Þess vegna er sú aðlögun sem ég gat um áðan ekki bara möguleiki, heldur virðist manni að óskoðuðu máli fyrir fram nánast staðreynd. (ÖS: Ef það er eitthvað að marka ...) Ef það er eitthvað að marka hina frægu Berlínarræðu og fleiri góðar ræður góðra manna liggur málið einfaldlega svona og því spurði ég hæstv. ráðherra áðan hvort hann teldi ekki allt útlit fyrir að það væri ekki annað en tímaspursmál hvenær við hæfum undirbúning að aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hvort það yrði eitt af hans fyrstu verkum eftir þann fræga dag 15. september 2004 að skipa samninganefndina við Evrópusambandið og hefja undirbúning að aðildarumsókn af fullum krafti. Honum gafst ekki tóm til að svara því en ég vona að hann geti komið inn á það í lokin í þessari ágætu umræðu í dag.