Ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:49:03 (6264)

2004-04-14 14:49:03# 130. lþ. 96.6 fundur 604. mál: #A ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að það hafa oft verið bornar fram fyrirspurnir á Alþingi af minna tilefni en þessu, enda ekki í fyrsta skipti sem þessi mál hefur borið á góma í tíð minni sem sjútvrh. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson spurðist fyrir um sama efni árið 2001.

Málum er þannig háttað að ráðgjafarnefnd sú sem vitnað var í kom síðast saman árið 1990, en í henni áttu sæti 16 manns. Ástæða þess að ráðgjafarnefnd var ekki skipuð í framhaldi af síðasta fundinum var sú að það var álit manna þá að faglegur stuðningur við meginmarkmið stofnunarinnar, þ.e. rannsóknir og ráðgjöf, næðist betur fram með starfsemi starfshópa á ýmsum sviðum þar sem hagsmunaaðilar kæmu að.

Árið 2001 var hafin endurskoðun á lögunum um Hafrannsóknastofnun og ég taldi ekki rétt meðan sú endurskoðun stæði yfir að hreyfa málinu. Í framhaldi af því sem ég hef viljað kalla seinni ofmatsskýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar, þar sem farið var í mjög ítarlega vinnu varðandi stofnstærðarmat stofnunarinnar, taldi ég ekki rétt að á sama tíma væri verið að endurskoða lögin. Það væri nóg að gert í bili þannig að því starfi var frestað og hefur ekki verið tekið upp aftur. Ég á von á því að innan mjög skamms tíma komi síðasta niðurstaðan af þeim fjölmörgu athugunum sem fram fóru vegna ofmatsins á sínum tíma, þ.e. að aflareglunefndin hin síðari eins og ég hef kosið að kalla hana skili af sér áliti.

Án þess að gera málið lengra tel ég að í ljósi laganna sé ljóst að það eigi að vera starfandi ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun og ég hef hafið undirbúning að því að senda erindi til stjórnar Hafrannsóknastofnunar og óska eftir tillögum hennar um hvernig skipan ráðgjafarnefndarinnar skuli háttað, en það er samkvæmt lögunum sem um málefnið fjalla. Í framhaldi af því verður erindisbréf og samsetning ráðgjafarnefndarinnar endurskoðuð og ný ráðgjafarnefnd skipuð.