Opinber störf í sjávarútvegi

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:03:32 (6270)

2004-04-14 15:03:32# 130. lþ. 96.7 fundur 793. mál: #A opinber störf í sjávarútvegi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hér er um skemmtilega orðaða fyrirspurn að ræða. Spurt er hvort eðlilegt sé að 90% af opinberum störfum í sjávarútvegi séu á höfuðborgarsvæðinu meðan 4% séu á Eyjafjarðarsvæðinu.

Opinber störf í sjávarútvegi eru Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Fiskistofa, Verðlagsstofa skiptaverðs, auk ráðuneytisins sjálfs. Sögulegar skýringar eru á því hvernig stofnanir ráðuneytisins byggðust upp. Saga hafrannsóknanna nær meira en öld aftur í tímann. Þær rannsóknir byggðust mest upp frá atvinnudeild Háskóla Íslands og voru á hans vegum í 30 ár áður en Hafrannsóknastofnun var komið á fót árið 1965. Saga Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins nær aftur til 1934. Fiskistofu var komið á laggirnar árið 1993 með endurskipulagningu á starfsemi sem fyrir var. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur frá stofnun verið staðsett á Akureyri.

Þegar spurt er um hvort skipting starfa milli höfuðborgarsvæðisins og Eyjafjarðarsvæðisins sé eðlileg verður að líta á málið í þessu sögulega ljósi. Út frá því má fullyrða að skiptingin byggist ekki á neinum óeðlilegum ákvörðunum í gegnum tíðina. Reikna má með því að allir þeir sem borið hafa ábyrgð á stjórn landsins síðustu 100 ár hafi átt hlut að þeirri þróun. Hitt er svo annað mál hvort þessi þróun hafi verið æskileg að öllu leyti og hvort ástæða sé til að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins og grípa til sérstakra aðgerða í því sambandi.

Sjónarmiðin breytast hugsanlega í tímans rás. Nú er almennt mikil viðleitni í gangi til að auka fjölbreytni í atvinnulífi utan höfuðborgarsvæðisins, nokkuð sem var ekki endilega svo hátt í forgangsröðinni þegar stofnanirnar voru byggðar upp á sínum tíma. Útibú starfa utan höfuðborgarsvæðisins á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og nokkrir eftirlitsmenn á vegum Fiskistofu starfa utan höfuðborgarsvæðisins.

Þær breytingar hafa orðið hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins að þjónustumælingar eru að færast að miklu leyti frá stofnuninni til annarra aðila sem geta reyndar starfað á viðkomandi stöðum áfram ef áhugi er á slíku. Á móti hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hug á að auka rannsóknastarfsemi í útibúum utan höfuðborgarsvæðisins.

Almennur vilji er fyrir því að byggja upp sem mest af nýrri starfsemi á vegum sjútvrn. og stofnana þess utan höfuðborgarsvæðisins. Þá er einkum horft til Eyjafjarðarsvæðisins, Ísafjarðarsvæðisins og Vestmannaeyja, a.m.k. fyrsta kastið. Hvernig þeirri uppbyggingu verður háttað og hversu hröð hún getur orðið fer að sjálfsögðu eftir þeim takmörkunum sem rekstur opinberrar starfsemi almennt býr við og hvernig forgangsröðun verður háttað í ljósi fjölda annarra brýnna verkefna á vegum hins opinbera.

Beina svarið við hinni skemmtilega orðuðu spurningu er að það geti verið eðlilegt að þessum málum sé háttað eins og þau eru í dag, það sé ekkert óeðlilegt við það. Hins vegar getur líka verið fullkomlega eðlilegt að hærra hlutfall starfa á vegum sjútvrn. sé á Eyjafjarðarsvæðinu eða annars staðar í dreifðari byggðum.