Endurgreiðsla námslána

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:13:19 (6307)

2004-04-14 18:13:19# 130. lþ. 96.11 fundur 706. mál: #A endurgreiðsla námslána# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hér tóku þátt og lögðu áherslu á þetta mál. Hæstv. fjmrh. þakka ég svörin þó að ég verði að taka fram að ég er ákaflega svekktur yfir þeim. Ég tala nú ekki um eftir að í ljós kom að þessi þrautaganga hefur staðið tveimur árum lengur en ég taldi, miðað við það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi varðandi tillögu frá Byggðastofnun frá árinu 1997.

Þetta er sem sagt sjö ára þrautaganga hæstv. ríkisstjórnar. Ef þetta er ekki talandi dæmi fyrir hæstv. ríkisstjórn gagnvart því sem á að gera á landsbyggðinni þá veit ég ekki hvað það er. Ef hæstv. iðnrh. hefði staðið fyrir svörum hefði hún væntanlega talið upp nýsköpunarmiðstöð, væntanlegt öndvegissetur og álver og stóriðju fyrir austan, allt mjög góð mál ... (Gripið fram í: Og nýja skýrslu.) og nýja skýrslu.

Í svari hæstv. fjmrh. las hann úr skýrslu, það sem fram kemur í skýrslu hæstv. iðnrh. Hins vegar kom ekkert nýtt fram. Í sjö ár hafa menn skoðað hlutina og ekkert gert.

Hæstv. fjmrh. segir að þetta sé skoðað með opnum huga. Ja, mikil ósköp. Það er verið að skoða margt með opnum huga, hæstv. fjmrh., gagnvart landsbyggðinni. Hins vegar verður ekkert úr framkvæmdum. Það er alvarlegt mál og gerir það að verkum að landsbyggðin er sífellt að veikjast. Gera menn sér ekki grein fyrir því? Á meðan gera menn alls konar hluti, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi, í byggðaaðgerðum í Reykjavík, eins og hann nefndi dæmi um.

Þetta er með ólíkindum virðulegi forseti. Það er einmitt eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði: Það er kominn tími til aðgerða. Athafnir í stað orða, mætti verða leiðarstef hæstv. ríkisstjórnar í byggðamálum. Það á ekki eingöngu við það atriði sem hér er nefnt sem hefur, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson lýsti, eflt byggð í Noregi.

Ég hvet hæstv. fjmrh. til þess í seinna svari sínu að líta til þess sem gert er í Noregi, því ágæta landi, láta athafnir koma í stað orða og koma slíku kerfi á á Íslandi.