Afsláttur af þungaskatti

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 18:21:24 (6310)

2004-04-14 18:21:24# 130. lþ. 96.12 fundur 762. mál: #A afsláttur af þungaskatti# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[18:21]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Þannig er um þetta atriði að í lögunum um fjáröflun til vegagerðar þar sem ákvæðin um þungaskatt er að finna er sérstakt ákvæði sem á við um þær aðstæður sem hv. þm. lýsir og fjallar um í fyrirspurn sinni. Það ákvæði kom inn í lögin árið 1996 og hljóðar svo, með leyfi forseta, og les ég þá úr 3. mgr. b-liðar 4. gr. laganna:

,,Nú er ökutæki eingöngu notað vegna flutninga þar sem leyfð heildarþyngd nýtist ekki til fulls og getur eigandi eða umráðamaður þá fengið gjaldþyngd ökutækisins skráða lægri en leyfð heildarþyngd þess er. Þó skal gjaldþyngd ekki vera lægri en eigin þyngd ökutækis. Ríkisskattstjóri veitir heimild samkvæmt þessari grein og getur bundið hana tilteknum tímamörkum.``

Í greinargerð með þessari lagabreytingu á árinu 1996 var þetta skýrt með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

,,Í b-lið er veitt heimild til að skrá gjaldþyngd ökutækis lægri en leyfð heildarþyngd þess er samkvæmt ökutækjaskrá í þeim tilvikum sem leyfð heildarþyngd ökutækis nýtist ekki til fulls. Um er að ræða svipaða heimild og er í núgildandi lögum. Gera má ráð fyrir að aðilar, sem eingöngu flytja mjög léttan farm miðað við rúmmál, geti nýtt sér þessa heimild, til dæmis þeir sem flytja vikur, svo og þeir sem geta ekki nýtt flutningsgetu ökutækja sinna vegna tímabundinna þungatakmarkana.``

Heimildin er með öðrum orðum þegar í lögum en samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað frá embætti ríkisskattstjóra, sem ber ábyrgð á þessari framkvæmd, hefur hún lítið sem ekkert verið nýtt á þeim átta árum sem nú eru liðin, a.m.k. ekki af þeim sem aka á leiðum þar sem þungatakmarkanir eru settar á vorin.

Hver er skýringin á því? Ég get ekki fullyrt um það en vitanlega er þetta erfitt í framkvæmd vegna þess að það þarf að láta lesa af ökumæli af þar til bærum aðila. Það er umhendis, það þarf að skrá niður gjaldþyngdina áður en farið er í ferð þar sem þungatakmarkanir eru og láta síðan lesa aftur af mæli og skrá niður gjaldþyngdina o.s.frv. Þetta hefur greinilega reynst það flókið að aðilar sem þarna eiga hagsmuna að gæta hafa ekki nýtt sér heimildina.

Lagaákvæðið sem fyrir hendi er sýnir að það úrræði sem hv. fyrirspyrjandi er að ýja að með spurningu sinni, að veita flutningafyrirtækjum afslátt af þungaskatti meðan á þungatakmörkunum stendur, er bara mjög erfitt í framkvæmd. Búið er að sýna fram á það með því að þessi lagaheimild hefur verið fyrir hendi í öll þessi ár en lítið sem ekkert notuð.

Annars held ég að við hv. þm. Kristján Möller ættum að taka höndum saman um að hætta að fjalla um gallana á þungaskattskerfinu og snúa okkur að því að ná saman um að breyta alveg um kerfi og taka upp olíugjaldið sem nú er til meðferðar í þingnefnd og hv. þm. hefur þegar tjáð sig mikið um það mál við 1. umr. þess. Ég skora á hann og þingheim allan að snúa bökum saman í því máli.