Hjúkrunarrými í Suðvesturkjördæmi

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:16:16 (6336)

2004-04-14 19:16:16# 130. lþ. 96.16 fundur 800. mál: #A hjúkrunarrými í Suðvesturkjördæmi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:16]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Suðvest. spyr hve mörg hjúkrunarrými sé áætlað að taka í notkun í Suðvest. á árunum 2004--2006. Í ársbyrjun 2004 voru 50 hjúkrunarrými tekin í notkun á Vífilsstöðum í Garðabæ. Í október 2004 er fyrirhugað að taka í notkun 8 hjúkrunarrými fyrir minnissjúka í Roðasölum í Kópavogi eins og fram kom í ræðu fyrirspyrjanda. Það er hins vegar ekki fyrirhuguð fjölgun hjúkrunarrýma í Suðvest. á árinu 2005. Við erum að vinna áfram varðandi 2006 en niðurstöður fyrir það ár liggja ekki fyrir. Það má hins vegar geta þess að frv. um málefni aldraðra liggur fyrir á hv. Alþingi og ég vona að það verði afgreitt á þessu þingi og við byggjum áframhaldandi vinnu á þeirri löggjöf.

Hv. þm. spyr einnig hve margir aldraðir séu nú um hvert hjúkrunarrými í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ. Miðað við áætlaða vistunarþörf aldraðra í mjög brýnni þörf eftir hjúkrunarrými eru á árinu 2004 1,4 aldraðir Kópavogsbúar um hvert rými, 1,3 aldraðir í Reykjavík, 1,1 í Hafnarfirði og 0,7 í Garðabæ. Á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ eru engin hjúkrunarrými. Hafa aldraðir á þessum stöðum verið vistaðir í hjúkrunarrýmum og á hjúkrunarheimilum í öðrum bæjarfélögum. Leggja ber áherslu á að taka verði framangreindum hlutföllum með varúð þar sem talsvert er um að aldraðir á höfuðborgarsvæðinu séu vistaðir á hjúkrunarheimili í öðru bæjarfélagi en þeir eiga heima í. Ef tekið er tillit til þeirra 8 hjúkrunarrýma fyrir minnissjúka sem áætlað er að taka í notkun í Roðasölum í Kópavogi í október 2004 og þeirra 60 hjúkrunarrýma sem fyrirhugað er að taka í notkun á Hrafnistu í Reykjavík í júlí 2004 eru 1,3 aldraðir Kópavogsbúar um hvert hjúkrunarrými og 1,2 aldraðir Reykvíkingar um hvert hjúkrunarrými.