Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:39:02 (6346)

2004-04-14 19:39:02# 130. lþ. 96.20 fundur 834. mál: #A sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:39]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Færa má fyrir því sterk rök að aldrei hafi farið fram meira landgræðslu- að ég tali nú ekki um skógræktarstarf í landinu en það sem skapast hefur á síðustu 5--10 árum og er það mjög að breyta landinu og hugarfari okkar.

Hvað spurningu hv. þm. varðar vil ég svara henni á þann veg að ég tel í rauninni mikilvægt að fara yfir allt stoðkerfi landbúnaðarins með það í huga að það verði sem skilvirkast og þjóni sem best hagsmunum landbúnaðarins og bændanna í breyttu þjóðfélagi.

Á morgun mæli ég fyrir frv. um Landbúnaðarháskóla Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins í einni stofnun sem dæmi um nýja sýn og nýja mikilvæga þróun.

Ég vil líka segja frá að ný sýn sem ég hef sett fram er landbúnaðarstofnun þar sem allt eftirlit innan landbúnaðarins yrði staðsett. Ég tel t.d. að væntanleg matvælastofnun geti aldrei orðið langt frá landbrn. eða landbúnaðinum. Við sjáum dæmi þess í nágrannaþjóðfélögum eins og t.d. í Danmörku að slíkt heyrir undir landbrn. Keðjan er frá haga í maga. Ég útiloka í raun ekki að það geti komið til þess og það þarf að fara rækilega yfir samruna Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins og hinna stórfenglegu skógræktarverkefna, landshlutaverkefnanna, og hvernig við þjónum best þeim nýja og öfluga atvinnuvegi sem er að rísa í landinu. Við gerum okkur grein fyrir því að hlutverk Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins hefur breyst mjög á síðustu árum. Þær eru ekki lengur framkvæmdastofnanir heldur fyrst og fremst þjónustu- og ráðgjafarfyrirtæki þannig að hlutverk þeirra hefur breyst. Það eru bændurnir í landinu sem rækta skóginn og eigendur lögbýlanna, það eru bændurnir sem eru mjög öflugir í landgræðslunni o.s.frv.

Ég tel mjög mikilvægt að fara yfir það allt saman í heild sinni með Bændasamtökum Íslands hvernig allri ráðgjöf við landbúnaðinn verður hagað og hvar t.d. sterkar þjónustumiðstöðvar, ráðunautaþjónustan, séu staðsettar. Við getum hugsað það sem hv. þm. sagði áðan, ef við hugsum um menntun sem þarf í landbúnaðinum, að við komum inn í dal þar sem rennur kannski á og í ánni er fiskur sem bóndinn vill hafa arð af. Hann þarf sérfræðing í það. Hann þarf sérfræðing í túnræktina á bökkum árinnar. Hann þarf sérfræðing frá Skógræktinni í skógræktarverkefni sem hann er með uppi í hlíðinni og þar fyrir ofan er kannski uppblástur lands. Allt er þetta svipuð menntun og þarf ekki að sækja hana í sjálfu sér til margra stofnana.

Ég tek þess vegna undir það með hv. þm. að á þetta þarf að varpa sýn og vissulega er ég að skoða það í mörgum þeim breytingum sem nú er unnið að. Á síðustu árum hefur slík umræða oft komið upp. Það var vandlega skoðað í ráðherratíð hv. þm. Halldórs Blöndals, sameining rædd o.s.frv. á þessu sviði, og þá var bent á nokkrar leiðir sem væru hyggilegar fyrir þessar stofnanir, annaðhvort aukin samvinna eða sameiginleg yfirstjórn eða óbreytt ástand eða allsherjarsameining í eina stofnun. Ekkert hefur orðið úr þessu enn þá.

Eins var þetta skoðað mjög vel í tíð Guðmundar Bjarnasonar landbrh. Sömuleiðis starfaði nefnd hjá mér á árunum 2000 og 2001 um stefnumótun í skógrækt. Þar voru sameiningarhugmyndir viðraðar en málið er ekki lengra komið. Ég vil undirstrika það og taka undir með hv. þm. að við þurfum vissulega að fara yfir þessi mál miðað við nýjar aðstæður og breytingar í landbúnaði. Ég tel því fulla ástæðu til að skoða fyrst og fremst hvernig ráðgjafarþjónustu, kennslu og rannsóknum verði best fyrir komið í framtíðinni og útiloka ekkert um að það beri að endurskipuleggja og þess vegna sameina þessar stofnanir eða búa til sterkari stofnanir sem gætu betur nýtt sér þann tíma sem fram undan er, eins og hv. þm. ræddi um gagnvart styrkjum frá Evrópu og víðar og þeirri miklu þekkingu sem við erum líka að láta af okkur leiða um víða veröld í þessum efnum. Við erum sérfræðingar í landgræðslu á Íslandi og höfum hjálpað mörgum þjóðum þar og eigum samstarf víða þannig að þetta er stórt mál sem ég mun skoða á næstunni.