Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 11:51:46 (6375)

2004-04-15 11:51:46# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[11:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ekki gera þessum ágæta þingmanni það upp að hann tali ekki af sannfæringu, en mér fannst vanta ástríðuhitann í ræðu hans. Má ég gerast svo djarfur, herra forseti, að halda því fram að hæstv. landbrh. hafi slíkt ægivald yfir þingmönnum Sjálfstfl. sem tengjast landbúnaðargeiranum að þeir þori ekki að tala hug sinn? Ég heyrði ekki betur en öll ræða hv. þm. hnigi að því að það væri farsælt fyrir þá skóla og þær stofnanir sem hv. þm. var að rökræða að færa þær undir menntmrn.

Hann skýrði t.d. í fyrstu ræðu sinni með hvaða hætti tekist hefði að byggja upp Hótel- og veitingaskólann og hversu auðvelt hefði reynst að afla honum fjármagns og hversu vel hefði tekist til. (Gripið fram í: Hann er á hausnum.) Mér fannst hv. þm. vera að segja að ef farin yrði sama leið með suma skóla sem hér eru undir yrði það líklegt til að styrkja þá. Þessi mál hafa áður komið til umræðu á hinu háa Alþingi, þau hafa verið til umræðu í flokki hv. þm. og á búnaðarþingi, því finnst mér að jafnvel þó að hér sé um 1. umr. að ræða hljóti hv. þm. að hafa skoðun á þessu. Mér fannst sú skoðun, sem ég held að hann hafi, smita í gegnum þær góðu ræður sem hann hefur flutt hér. Af hverju kemur hann ekki hingað og segir hreint út hvað honum finnst? Ætlar hann að vera mjög lengi undir hæl hæstv. landbrh. í þessu máli?