Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 11:55:07 (6377)

2004-04-15 11:55:07# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[11:55]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða tvö frumvörp, annars vegar um rannsóknir í þágu atvinnuvega og hins vegar um búnaðarfræðslu. Gert er ráð fyrir að stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands taki Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri undir sinn hatt með þeirri stefnumótun sem lagt er upp með.

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að láta þá skoðun mína í ljós í tilefni umræðunnar sem fram fór milli þeirra tveggja hv. þm. sem töluðu síðast, að ég tel að landbúnaðarmenntunin í landinu eigi ágætlega heima undir landbrn. og ég tel t.d. að breytingin á Sjómannaskólanum á sínum tíma, færslan undir menntmrn., hafi ekki verið þeirri stofnun til góðs.

Landbúnaðarframleiðslan og þau rannsóknasvið sem verið er að tala um að færa í einn búning skiptir hinar dreifðu byggðir mjög miklu máli. Þetta er menntun sem nýtist mjög vel út um landið, í landnýtingu o.s.frv. og vonandi eru nýir möguleikar í farvatninu varðandi ræktun, t.d. ræktun á erfðabreyttum plöntum til að byggja m.a. upp forða fyrir lyfjaframleiðslu. Vonandi verður það mjög til að efla landbúnað og styrkja við landnýtingu hér á landi í framtíðinni og getur vissulega orðið ein af þeim máttarstoðum sem styrkja búsetu í landinu almennt og landnýtingu. Ég held að allir sem hafa kynnt sér það sem getur verið í farvatninu m.a. fyrir atbeina líftæknifyrirtækisins ORF bindi miklar vonir við það sem sú framtíð gæti fært byggðum landsins.

Ég vil almennt segja um frumvörpin að ég tel að við séum að stefna þessum málum í farveg sem þeim sem hér stendur líkar vel og að við séum efnislega að fara með málið í betri farveg en á undanförnum árum. Þess vegna legg ég þessum málum lið eins og þau koma efnislega fyrir, þó vissulega eigi eftir að vinna málin í nefndum þingsins og megi margs spyrja í því sambandi.

[12:00]

Ekki er þó hægt að ræða þessi mál án þess að víkja að því og benda á að þau eru seint fram komin í þinginu og það er auðvitað ekki gott að fá mál inn mjög seint sem ætlast er til að verði afgreidd á vorþinginu. Ég hef áður vikið að því þegar við ræddum frumvörpin um ábúðarlögin og jarðalögin að það væri hæstv. landbrh. ekki beint til sóma í verklegri stjórnun, hæstv. forseti, að koma svona seint inn með mikla málaflokka. (Landbrh.: Vorvertíðin stendur í mánuð.) Já, já, það hefur löngum þekkst að lengja vorvertíð þegar vel aflast en ég er ekki viss um (Gripið fram í: Aflinn aukist.) að aflinn aukist svo mikið við það. Það er einfaldlega rétt að ætla þinginu tíma til að vinna mál vel og vandlega svo við þurfum ekki að lagfæra einhver mistök sem við ella gerum vegna þess að verið er að vinna málin í einhverju tímahraki.

Það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, svo við höldum aðeins áfram um vinnubrögð í þinginu að það er afar sérstakt hvernig þingið hefst á haustin þegar stjórnarandstaðan leggur fram sín mál, mjög mörg mál og mjög vel unnin, og síðan fer nánast allur október í að ræða mál sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram. Sá litli flokkur sem ég er í forsvari fyrir hefur komist upp í að ræða þrjú þingmál á dag í októbermánuði. Ríkisstjórnin kemur svo með málin seint og síðar meir eins og við sjáum á dagskránni í dag og dagskránni á morgun. Þetta er auðvitað ekki vinnulag sem er til nokkurrar fyrirmyndar. Ekki það að við séum að kvarta undan því, þingmenn stjórnarandstöðunnar, að fá að ræða okkar mál en það er afar sérstakt hvernig vinnulagið gengur fyrir sig í þinginu og mætti gjarnan breytast talsvert. Það liggur aðallega í því að ríkisstjórnin og ráðherrarnir eru seinir inn með mál sín, mikilvæg mál, og ætlast svo til þess að við afgreiðum þau í hálfgerðu hasti vegna þess að þinginu er orðið stjórnað af ráðherrunum og krafan um forgang stjórnarfrumvarpanna er það stíf að allt annað er látið víkja.

Þetta er auðvitað ekki til fyrirmyndar og er umræða sem hefur svo sem farið fram áður og bara nýlega um störf þingsins, utandagskrárumræða. Ég held að allir sjái að þessu lagi þarf að breyta. En nóg um það í bili.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra m.a. út í 3. gr. frv. á þskj. 1337, um búnaðarfræðsluna, þar sem segir í a-lið að í stað orðanna almennar reglur í 1. mgr. 5. laganna komi reglugerð, og í b-lið að við 1. mgr. sömu greinar bætist nýr töluliður um verkaskiptingu milli skólanna. Hvaða viðhorf hefur hæstv. ráðherra til þeirrar verkaskiptingar milli skólanna sem fyrirhuguð er og hvernig sér hann fyrir sér fyrirkomulagið í verkaskiptingu á milli skólanna? Vikið hefur verið að því í ræðum hv. þingmanna hvort sum verk væru betur komin undir Garðyrkjuskólanum á Reykjum eða fyrirhuguðum Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Hvernig sér ráðherrann fyrir sér samstarf Hólaskóla og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og þeirra þriggja skóla sem undir ráðuneytið heyra? Það er beinlínis sagt í frv. að inn í eina grein laganna bætist verkaskipting á milli skólanna. Áður en lengra er haldið og málið fer til nefndar hefði verið gaman að heyra viðhorf hæstv. ráðherra varðandi þá verkaskiptingu og hvernig ráðherrann sér hana fyrir sér.

Ég vil einnig vekja athygli á því að það segir á einum stað í frv. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna að Landbúnaðarháskóla Íslands sé heimilt að gerast eigandi í fyrirtækjum sem starfa að nýsköpun og öðru slíku, og geri ég ráð fyrir, hæstv. forseti, að það séu þá rektor og háskólaráð sem ræði það hvers konar fyrirtæki eða skilgreind starfsemi teljist mjög áhugavert fyrir skólann og framtíð menntunar í skólanum að tengjast, að það séu rektor og háskólaráð sem leggi upp með hvar þau vilji tengjast með beinni eignaraðild eða aðild að tilteknum verkefnum sem ákveðin fyrirtæki eru að vinna, en svo segir að það skuli vera ráðherra sem hafi endanlegt úrskurðarvald, að skólanum sé heimilt að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum en að fengnu samþykki ráðherra.

Eigum við að skilja þetta svo, hæstv. forseti, að ef rektor og háskólaráð hafa komið með tillögu um að tengjast ákveðnu verkefni eða gerast aðilar í ákveðnu fyrirtæki sem þeim finnst áhugavert hafi ráðherrann neitunarvald? Hann geti þrátt fyrir samhljóða ályktun háskólarektors og háskólaráðs sagt ,,nei takk, inn í þetta fyrirtæki förum við ekki`` eða ,,í þetta verkefni förum við ekki``. Ég verð að segja alveg eins og er að mér fyndist það afar snúin niðurstaða og einkennileg ef það væri samhljóða ákvörðun rektors og háskólaráðs að tengjast einhverju ákveðnu verkefni, m.a. með þeim hætti sem hér er lagt til, og það væri svo ráðherra sem segði nei og stöðvaði það. Ég vil vekja athygli á þessu atriði og spyrja hvort það teljist eðlilegt.

Ég vil líka gera athugasemdir við það sem aðrir hv. þingmenn hafa vakið athygli á varðandi það að nemendur og starfsfólk, kennarar, eigi ekki aðild að stjórn skólans. Mér finnst það mjög einkennilegt og tel að það sé ekki til góðs að fulltrúar þessara aðila sem eru annars vegar nemendur skólans og hins vegar kennarar eigi ekki aðild að háskólaráðinu, ekki það að ég sé að gera lítið úr því að efla samskiptin við t.d. Bændasamtökin og Samtök atvinnulífsins, en mér finnst ekki rétt að þessum fulltrúum sé ýtt út úr háskólaráðinu.

Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðherra ræddi aðeins um það hvers vegna hann leggur málið upp með þeim hætti að fulltrúar nemenda og kennara eigi ekki aðild að háskólaráðinu og að nauðsynlegt sé að taka þá fulltrúa út til þess að hafa betri tengsl, eins og mig minnir að ráðherranum hafi orðað það í ræðu sinni, við atvinnulífið. Ég held að skólar landbúnaðarins hafi mjög góða tengingu við atvinnulífið á sínum sviðum, bæði í garðyrkjunni og það sem verið er að vinna bæði á Hólum og eins á Hvanneyri. Það er auðvitað að meginstofni til atvinnulíf sem þróast úti á landsbyggðinni eða er undirstaða slíkrar framþróunar, vonandi segi ég, fyrir landsbyggðina, til að styrkja það sem þar getur horft til framtíðar og þá möguleika sem þar gætu verið í farvatninu.

Þetta vildi ég aðallega segja um frv. Efnislega er ég hlynntur því að það sem þau boða eigi sér stað og styð það að þessar stofnanir heyri undir landbrn. Ég hef ekki séð að það sé endilega stofnunum til góða að færa allt undir miðstýringu í menntmrn.