Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 13:03:31 (6390)

2004-04-15 13:03:31# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[13:03]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því og undirstrika að maður ætti að virða það sem gengur vel og styrkja frekar en að hugsa um hvernig menn geti breytt út af. Menn ættu frekar að snúa sér að veikari þáttum í annarri starfsmenntun.

Ég vil einnig taka undir áhyggjur hv. þm. af nafngiftinni á hinni nýju stofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands. Ég tel að það sé hvorki stofnuninni til góðs að setja svona hátt nafn á hana og gefa þannig til kynna að ekki séu aðrar landbúnaðarstofnanir á háskólastigi. Ég held að það verði henni ekki til góðs. Auk þess vísar það til þess að menn vilja opna á þá umræðu að vilja steypa þessum landbúnaðarstofnunum undir eina stjórn, undir einn hatt. Ég tel það alls ekki sjálfgefið og alls ekki rökrétt.

Allar þessar stofnanir eru litlar í alþjóðlegu samhengi. Það er því bitamunur en ekki fjár hvort það er þremur starfsmönnum meira á þessari stofnun eða hinni. Þær eru allar litlar. Styrkleiki þeirra felst í sjálfstæði þeirra, að geta breytt til og stokkið á ný tækifæri. Styrkur þeirra er líka fólginn í mjög nánum og öflugum tengslum við nærsamfélag þeirra. Þær stækka af því að vera nánast með nærsamfélagið innan veggja hjá sér og vera hluti af því. Þar með verða þær stofnanir stórar í andanum og skila góðu verki. Það er markmiðið en ekki sameining sameiningarinnar vegna, sem tröllríða því miður samfélaginu nú um stundir.