Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:50:04 (6408)

2004-04-15 14:50:04# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og öllum er kunnugt eru þessar vísindastofnanir og rannsóknastofnanir í umsjón ráðuneytanna og ráðherranna. Þeir stjórna hver sínum málaflokki og eru töluvert sjálfstæðir á Íslandi eins og allir vita.

Ég get ekki svarað þessari spurningu öðruvísi en kom fram áðan. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að reka rannsóknastofnanir af neinu tagi nema gagnvart grundvallarrannsóknum og eigi þá undantekningarlaust að tengja slíka starfsemi háskólum á Íslandi, ekki reka sjálfstæðar stofnanir, allra síst stofnun eins og Hafrannsóknastofnun Íslands, stofnun sem lokar sig af, bannar umræður og telur sig eina vera bæra til að fjalla um mál. Það er stórhættulegt vísindunum, stórhættulegt atvinnulífinu og allri framþróun ef við tryggjum ekki að vísindin séu frjáls og sjálfstæð og að umræðan geti átt sér stað milli vísindamanna. Það er hreyfiaflið. Það getur enginn komið og sagt: Ég einn hef rétt fyrir mér. Enginn getur gert það. En umræðan er hreyfiafl þekkingarinnar. Þess vegna verðum við að tryggja slíka útfærslu á þátttöku ríkisins og stuðningi ríkisins við vísindi og rannsóknir.