Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 15:11:19 (6416)

2004-04-15 15:11:19# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og þingmönnum fyrir skemmtilega og upplýsandi umræðu í dag og ég held að ef ráðherra og þingið ber gæfu til að taka mið af mörgu sem fram hefur komið í gagnrýni okkar þingmanna á frumvörpunum verða þau ansi góð að lokum.

Ég mundi vilja að það kæmi skýrar fram hjá hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst bregðast við gagnrýni á annars vegar skipan háskólaráðsins og hins vegar skipan rektors. Ég held að þarna sé um stórmál að ræða hvað varðar viðgang og vöxt Landbúnaðarháskóla Íslands að nemendur og kennarar fái fulltrúa í háskólaráðið þó það sé jafnvel á kostnað Háskóla Íslands. Ég held að það væru góð skipti, annars hiklaust að endurskoða skipanina og finna fulltrúa nemenda og kennara stað.

Hitt málið sem skiptir enn þá meira máli til að tryggja trúverðugleika og sjálfstæði þessarar háskólastofnunar, er hvernig rektor er valinn. Ráðherra gaf áðan til kynna að hann mundi jafnvel taka mið af þeirri gagnrýni sem fram kom á skipan mála, en þó ekki. Ég held að það skipti meginmáli til að tryggja þessari nýju stofnun sem við ætlum svo mikið hlutverk til að efla sveitirnar og landbúnaðinn og skapa ný tækifæri út um hinar dreifðu byggðir landsins sem við sem höfum talað í dag erum öll sammála um að sé mikilvægt markmið og verði að ná fram að ganga. Öflug rannsókna- og kennslustofnun á sviði landbúnaðar skiptir þar öllu máli og er algjör grundvallarstofnun undir endurreisn sveitanna þar sem þess þarf og annars staðar eflingu.

Því vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann vilji ekki endurskoða það að rektor skólans verði valinn með lýðræðislegum og eðlilegum hætti, en ekki skipaður beint af ráðherra sjálfum.