Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 15:13:31 (6417)

2004-04-15 15:13:31# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa því yfir sem ráðherra að flest þau mál sem ég hef flutt í minni tíð hafa fengið góða meðferð í þinginu og oft komið betri út en þau komu inn. Ég treysti sannarlega þinginu og þingið er til þess, löggjafarsamkoman, að fara yfir vafaatriði málsins, endurskoða, hlusta á raddir þeirra sem kallaðir verða til og breyta í samræmi við þær. Ég segi því við þingið: Í ykkar hendur er málið falið. Ég hef rætt það bæði við formann landbn., hv. þm. Drífu Hjartardóttur, og varaformann, hv. þm. Magnús Stefánsson, sem sátu í nefndinni um málið og lögðu það í mínar hendur að mörgu leyti með því fólki sem með þeim vann, að það verði að fara vel yfir gagnrýnisatriðin í nefndarstarfinu og meta þau út frá hagsmunum Landbúnaðarháskóla Íslands í framtíðinni og ekki síður landbúnaðarins og í leiðinni þess trúverðugleika sem ég tel mikilvægt að ríki um val á æðstu mönnum við slíka stofnun.