Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 19:25:36 (6471)

2004-04-15 19:25:36# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[19:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. félmrh. fylgir því hér eftir í framsögu sinni um þessa tillögu sem hann sagði í haust þegar ég mælti fyrir tillögu minni og fleiri þingmanna Samf. um framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kynjanna. Þegar ég las þessa nýju áætlun sem ráðherra mælir hér fyrir fannst mér vera himinn og haf á milli þess sem fram kom í þeirri framkvæmdaáætlun sem ég var með í haust og ráðherrann tók undir og þess sem sjá má í tillögunni sem hér er mælt fyrir. Þar er einungis talað um að finna þá aðferð sem er líklegust til að koma í veg fyrir kynbundinn launamun og eins að um er að ræða að endurtaka könnun sem gerð var árið 1995 um þætti sem hafa áhrif á laun og starfsframa kvenna og karla. Í tillögunni sem ég lagði fram og fleiri þingmenn var hins vegar um að ræða að það átti að gera tvær framkvæmdaáætlanir, annars vegar fyrir opinberan vinnumarkað og hins vegar fyrir almennan vinnumarkað. Markmiðið var að ná fram fullu launajafnrétti kynjanna á sex árum í samræmi við ákvæði 14. gr. laga. Þær áttu að vinnast í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og það átti að huga að því að beita ákvæði jafnréttislaga um jákvæða mismunun að undangenginni rannsókn á launamun kynjanna.

Þess vegna fagna ég því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra, að hann ætli að beina því til félmn. að hún skoði frekar að samræma það sem fram kemur í tillögu minni til þál. um þessa framkvæmdaáætlun því sem fram kemur í áætlun hæstv. ráðherra.

Ég vil einmitt spyrja hann hvort ég hafi ekki skilið það rétt --- ég heyrði í fréttum þegar áætlun hans var kynnt --- að hann legði til að framkvæmdaáætlun yrði gerð til að ná fram launajafnrétti kynjanna á fjórum árum. Ég var auðvitað mjög fegin að heyra það en gat ekki fundið því stað í þessari áætlun. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra frekar um það hvernig hann sjái samræmingu fyrir sér á þessum tveimur ályktunum.