Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 20:33:12 (6488)

2004-04-15 20:33:12# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[20:33]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera að skerpa mætti á þessu atriði tillögunnar. Hér er hins vegar gert ráð fyrir tilraun til að meta með tilliti til jafnréttismála nokkur stjórnarfrumvörp. Hvort það gerist með fleiri eða færri þeirra eða hvort framkvæmdin verði komin í gagnið fyrir þann tíma sem hér er um getið, þ.e. í lok árs 2005, veit ég ekki með vissu. Ekki hefði ég, hæstv. forseti, á móti því að það gerðist hraðar. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ástæða til að gaumgæfa með tilliti til jafnréttismála þau frv. sem við leggjum fram á Alþingi. Eins og ég gat um áðan er gert ráð fyrir að á vegum forsrn. verði saminn sérstakur gátlisti sem hægt væri að hafa til hliðsjónar við slíkt mat.

Við þekkjum það, hæstv. forseti, að í tveimur ráðuneytum hefur verið uppi sérstakt tilraunaverkefni varðandi kostnaðarmat frumvarpa með tilliti til áhrifa á rekstur sveitarfélaganna. Ég tel að sú reynsla sem við höfum haft af því, þótt ekki sé langur tími liðinn né að mörg frumvörp hafi verið metin í því tilliti, sé góð og sýni okkur að það er ástæða til að hafa vakandi auga í þessum efnum.