Fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:32:24 (6741)

2004-04-26 15:32:24# 130. lþ. 102.1 fundur 501#B fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, við munum fara yfir þær innritunartölur sem okkur berast um og upp úr miðjum júní þegar við getum virkilega talað um það viðfangsefni sem við erum að tala um núna og séð þá svart á hvítu hvaða tölur um er að ræða.

Það getur vel verið líka, eins og ég gat um áðan, að við sjáum fram á það að í sumum skólunum verði fækkun en í öðrum skólum umtalsverð aukning. Ég held að það sé málefni sem við höfum leyst fram til þessa og við komum til með að leysa það og þá áfram í góðri sátt og samvinnu við skólameistarana.

Ég var að gamni mínu og af forvitni að fara yfir fréttaflutning á svipuðum tíma fyrir ári og fyrir tveimur árum og mér sýnist sem það sé gamalkunnur og góður kór sem fer af stað um þetta leyti árs.