Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:45:59 (6743)

2004-04-26 15:45:59# 130. lþ. 102.12 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv. 40/2004, JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um að gera breytingar á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða og felur í sér sérstaklega tvennt, annars vegar að færa eftirlit á slátrun eldisfisks til sjútvrn. frá landbrn. og hins vegar fjallar það líka um hvernig fara skuli með eftirlit á fiskimjöli sem notað er í fóður en fóðureftirlitið er á vegum landbrn.

Ég vil vekja athygli á því að það er ákveðin réttaróvissa hvað varðar lögsögu um slátrun á eldisfiski þó að hér sé sú ákvörðun tekin að láta hana heyra undir sjútvrn. Ein rök fyrir því voru að fyrir nokkrum árum hefði við lagasetningu láðst að kveða á um hver skyldi fara með þessa lögsögu og þess vegna væri brýnt að kveða á um það. Dýralæknar á viðkomandi stöðum og yfirdýralæknir hafa almennt með höndum eftirlit með slátrun á öllu búfé og fyndist mér eðlilegt að svo væri áfram. Þar sem hér er þó verið að kveða á um og útiloka réttaróvissu er betra að svo sé en að það sé fullkomlega óljóst.

Einnig hefur komið fram við meðferð þessa máls að það er ekki samkomulag og ekki skilningur milli landbrn. og sjútvrn. um hvernig fara skuli með eftirlit með fiskimjöli sem fóðri. Við erum að afgreiða þetta frv. án þess að þeirri réttaróvissu sé eytt, virðulegi forseti, og því tel ég að vinna við frv. sé fjarri því að vera fullnægjandi. Það að við skulum afgreiða það hér án þess að samstaða sé milli ráðuneyta um einstaka þætti þess og hver eigi að fara með hvað finnst mér óviðunandi.

Engu að síður er verið að taka af óvissu fólks. Þótt málið sé fært undir sjútvrn. er verið að taka af réttaróvissu og tel ég því rétt að styðja málið en harma hversu illa það er unnið.