Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 18:08:32 (6785)

2004-04-26 18:08:32# 130. lþ. 102.28 fundur 960. mál: #A Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað# (heildarlög) frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa því yfir að mér líst ágætlega á þetta frv., þ.e. að Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið færist í framtíðinni úr því að vera á pappír og yfir á rafrænt form. Þetta er framtíðin og ég held að ágætur vefur Alþingis færi okkur heim sanninn um að stjórnsýslan getur hagað þessum málum með mjög góðum og skilvirkum hætti ef vandað er til verka og vel er að þessu staðið.

Herra forseti. Varðandi Lögbirtingablaðið, persónuverndina og það að menn skuli greiða fyrir aðgang að Lögbirtingablaðinu, þá er það rétt sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. áðan, að í Lögbirtingablaðinu birtast oft upplýsingar sem geta verið mjög viðkvæmar og varða persónulega hagi einstaklinga og fyrirtækja. Ég hef ekki trú á því að hægt verði að girða fyrir að rótað verði í fortíð fyrirtækja eða einstaklinga með því að setja upp einhverjar peningagirðingar. Frekar vildi ég velta upp þeirri spurningu hvort það væri ekki hreinlega réttara að ríkisstjórnin, hæstv. dómsmrh. og sú þingnefnd sem mun fjalla um frv., sem ég geri ráð fyrir að sé allshn., hugsi sér tilteknar leiðir til þess að slíkar upplýsingar verði hreinlega þurrkaðar út eftir ákveðinn tíma.

Ég geri ráð fyrir að á þessum vef eða þeim vefum þar sem Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið verða verði líka settar upp leitarvélar þannig að maður geti þá leitað að ákveðnum upplýsingum um tiltekin efnisatriði, jafnvel um ákveðnar persónur, ákveðin fyrirtæki o.s.frv. með mjög öflugum hætti. Mætti ekki velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að svo viðkvæmar upplýsingar verði hreinlega þurrkaðar út?