Svar við fyrirspurn um brottfall úr framhaldsskólum

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 13:32:37 (6943)

2004-04-28 13:32:37# 130. lþ. 105.91 fundur 510#B svar við fyrirspurn um brottfall úr framhaldsskólum# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs um störf þingsins vegna svars sem hæstv. menntmrh. hefur gefið við fyrirspurn frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni um brottfall í framhaldsskólum. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson er staddur erlendis og ég geri því athugasemd í hans stað.

Hér koma fram upplýsingar um brottfall í framhaldsskólum sem, eins og við vitum, er býsna viðkvæmt mál og nauðsynlegt að reyna að vinna í. Upplýsingarnar hafa hins vegar leitt umræðuna á nokkra villuvegu í fjölmiðlum víða og skólameistarar nokkrir hafa brugðist við, eðlilega. Með leyfi forseta segir hér m.a. í svarinu:

,,Brottfall má skilgreina á marga vegu. Þær tölfræðiupplýsingar sem hér eru lagðar fram sýna hlutfall þeirra nemenda sem hurfu frá námi milli skólaáranna 2002 og 2003.``

Þessi skilgreining á brottfalli virðist m.a. valda því að iðnnemar á samningi eru taldir með brottfallsnemendum. Slíkt er auðvitað ekki viðunandi og gefur afskaplega ranga mynd af brottfalli einstakra skóla. Þá virðist hér einnig vera talið sem brottfall ef nemendur hafa t.d. að hluta til verið á sjávarútvegsbraut og aflað sér svokallaðra 30 tonna réttinda. Þá eru einnig taldir til brottfallshóps í einstökum skólum nemendur sem lokið hafa öllu því námi sem hægt er að taka í einstökum skólum en hafa ekki farið í annan skóla til að ljúka viðkomandi námi sem þeir geta ekki í þeim skóla sem þeir hófu námið í. Þá eru þeir taldir brottfallsnemendur í þeim skóla sem þeir voru í áður.

Allt þetta, frú forseti, er óviðunandi að komi frá menntmrn. Það er nauðsynlegt að ráðuneytið, almenningur og skólafólk leggi sömu merkingu í orðið brottfall vegna þess að ég trúi að það sé sameiginlegt verkefni okkar allra að reyna að vinna í því að minnka brottfallið en til þess að svo sé hægt er lágmark að réttar upplýsingar liggi fyrir.