Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:39:59 (6960)

2004-04-28 14:39:59# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir ræddi aðallega um mál sem er ekki á dagskrá, þ.e. um frv. til laga sem var dreift á fundinum í dag og ekki er búið að veita afbrigði fyrir að megi ræða á þessum fundi. Við erum að ræða um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi núna, munnlega skýrslu menntmrh. Í því sambandi langar mig til að spyrja hv. þm. út í eftirfarandi ummæli frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni sem er í hennar flokki og þeir segja gjarnan: Við samfylkingarmenn höfum hina og þessa skoðunina. Hann var að ræða um einkavæðingu á Ríkisútvarpinu sem ég lagði til. Þetta eru ekki tíu ára gömul ummæli heldur átta vikna gömul. Hann sagði, með leyfi forseta:

,,Ég hef kannski ekki miklu við þetta að bæta. Ég verð þó að segja að ég er ekki viss um að það mundi bæta fjölmiðlaflóruna þó að Ríkisútvarpið yrði sameinað Norðurljósum. Það er ljóst að það er ekkert í þessu sem kemur í veg fyrir að af því kynni að verða.``

Síðan endurtekur hv. þm. fsp. í andsvari. ,,Fyrirspurn mín til hv. þm:.`` --- það er mín persóna -- ,,Er eitthvað í frv. sem kemur í veg fyrir að Ríkisútvarpið verði einfaldlega sameinað Norðurljósum?``

Þetta kynni að vera eini maðurinn hjá Samf. sem hefði þessa skoðun þrátt fyrir samtengingu heila þeirra sem alltaf er vitnað í. En hv. þm. Jóhann Ársælsson segir á sama hátt:

,,Eins og að drekka vatn ætla menn að selja Símann og búa til samkeppnisumhverfi sem er af því taginu sem hér var lýst`` --- þ.e. að selja RÚV --- ,,ef niðurstaðan yrði sú að Stöð 2 keypti Ríkisútvarpið.``

Aðalandstaðan við að einkavæða Ríkisútvarpið er sem sagt hræðsla Samf. við að Stöð 2 kaupi Ríkisútvarpið.