Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 15:57:05 (6984)

2004-04-28 15:57:05# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Stafræna kerfið sem hæstv. ráðherra var að tala um gefur nánast ótakmarkaða möguleika fyrir aðila að komast inn á þann markað. Finnst hæstv. ráðherra ekki svolítið undarlegt að við skulum vera að ræða um að takmarka aðgang að því að veita þessa þjónustu í landinu þegar hann er að undirbúa að koma ótakmörkuðum möguleikum á fót til þess að veita þessa þjónustu, í ljósi þess að menn telja sig jafnvel geta farið úr landi núna og sent dagskrána yfir Ísland án þess að fá leyfi útvarpsréttarnefndar til þess að hafa þær rásir sem eru nú leyfðar þar? Hvernig finnst hæstv. ráðherra eiginlega að standa í því með félögum sínum í ríkisstjórninni að þvinga í gegnum Alþingi einhverjar þrengingar gagnvart þeim sem vilja vera á markaðnum í dag? Hvað ræður þessu?

Er hæstv. ráðherra, því hann er þingmaður Norðvest., t.d. sammála því að verið sé að þrengja að útvarpsstöðinni sem rekin er á Skagaströnd með þessari lagasetningu? Mér finnst ástæða til að spyrja um það í leiðinni, því sá sem hefur það leyfi er í öðrum rekstri og samkvæmt frv. er honum bannað að fá útvarpsleyfinu úthlutað aftur af því að hann er með veitingastað og veitir þjónustu í gegnum hann. Finnst hæstv. ráðherra að það gangi að berja á lítilli útvarpsstöð sem er rekin í kjördæminu okkar?