Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 16:33:56 (6997)

2004-04-28 16:33:56# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[16:33]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Svarið er: Á landsfundi Samf. árið 2001 og síðan í þeim plöggum sem hafa birst frá okkur á fundum og í hinum ýmsu greinum og skrifum öll þau þrjú ár sem liðin eru.

Það er hins vegar rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að ég sagði þessi orð og er nokkuð stoltur af þeim enn þá. Mér fannst þetta nokkuð gott hjá mér, satt að segja, vegna þess að þar var ekki um að ræða stefnu Ríkisútvarpsins. Þar var um að ræða spurninguna um hvað eigi að taka við þegar afnotagjöldin verða afnumin, afnotagjöldin sem hæstv. ráðherrar hafa af einhverjum ástæðum verið að afnema síðustu daga í tónum og tali án þess að segja neitt um það hvað eigi að koma í staðinn. Það sem ég taldi fram var að það væru ýmsir kostir á því hvað gæti komið í staðinn fyrir afnotagjöldin. Það geta menn lesið í greinum eftir mig og ég get látið þá fá þær, það eru auðvitað fjárlög með rammasamningi til langs tíma, það er nefskattur og það eru nokkur ráð í viðbót sem ég ætla ekki að eyða tímanum hér í að telja upp. Það sem ég var að segja var það að ég eða Samf. hefðum ekki valið á milli þessara kosta og teldum ekki ráðlegt í núverandi stöðu að velja á milli þeirra. Vegna hvers ekki? Jú, vegna þess að umræða á eftir að fara fram í samfélaginu um það. Við nefnilega notum önnur vinnubrögð en flokkur hv. síðasta ræðumanns. Við reynum að fleygja hlutanum út í umræðu, fá skoðun á þeim, fá álit, reyna að vega þau og meta og komast síðan að einhverri lausn sem helst á að vera í samkomulagi og í samráði við sem allra flesta. Þetta eru ekki vinnubrögð sem flokkur hv. síðasta þingmanns viðhefur, nema náttúrlega kannski í því að auðvitað má segja að þessi árin fari fram mikið samráð um Ríkisútvarpið.

Einmitt í umræddum þætti var verið að ræða tillögur hans og fleiri sjálfstæðismanna hér á þinginu um að selja Ríkisútvarpið, bara leggja Ríkisútvarpið niður. Það er þveröfugt við það sem aðrir hafa lýst hér yfir og sem betur fer þveröfugt við eina helstu niðurstöðu skýrslunnar, og okkar í Samf., þá að besta ráðið til að virka gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði sé að halda þessari sterku stöðu þjóðarútvarpsins.