Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:53:39 (7025)

2004-04-28 18:53:39# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:53]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns, ég veit ekki hvort hv. þm. var í salnum þegar ég hóf mál mitt, tel ég að skýrslan sem við erum með og sú vinna sem verður unnin í tengslum við hana marki þáttaskil í umræðum um fjölmiðlun á Íslandi. Ég tel að hér hafi verið dregin saman sá fróðleikur sem eigi að duga okkur til þess að ræða málið á nýjum forsendum og við eigum að miða við það sem liggur fyrir og stöðuna eins og hún er miðað við þær öru breytingar sem eru á þessu sviði. Skýrslan segir okkur að ekki sé nóg að fara í ritstjórnir fjölmiðlanna með lagasetningarvald eins og Samf. vill, heldur verði að líta á eignarhaldið og þá samþjöppun sem hefur orðið á markaði. Það er meginniðurstaða skýrslunnar og þess vegna tel ég að þeir sem vilja taka mark á skýrslunni, hrósa henni á annan veginn og draga síðan ekki þær ályktanir af henni sem höfundarnir gera á hinn bóginn, spyr ég mig: Hvaða hagsmuni er verið að verja með því að afflytja skýrsluna á þann veg að segja að hún snúist ekki um að nauðsynlegt sé að setja þær reglur til þess að takmarka eignarhaldið og setja reglur sem lúta að eignarhaldi á fjölmiðlum?

Ég tel að frv. með skýrslunni sé ekki það hamlandi að ekki sé unnt að reka öfluga fjölmiðla þótt frv. verði að lögum.