Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:30:34 (7069)

2004-04-28 22:30:34# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:30]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mann rekur eiginlega í rogastans við að sjá alla þessa svokölluðu frjálshyggjumenn koma upp í pontu hvern á fætur öðrum og reyna að mæla frv. bót. Fyrrverandi Heimdellingar eru að reyna að mæla frv. bót. Frelsið, að ég tel, sem þeir hafa verið að boða á öllum sviðum undanfarin ár og hamrað miskunnarlaust á er nú hreinlega orðið þeim sjálfum að alvarlegu fótakefli í þessu frv. Mér finnst alveg með ólíkindum að hlusta á hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson koma hér og reyna að mæla því bót. Mér finnst Sjálfstfl. vera búinn að kasta fyrir róða stefnumótun og gildum eins og frelsi einstaklingsins til orða og athafna og markmiðinu um frelsi í viðskiptum og frjálsa samkeppni þegar þeir reyna að koma í gegnum Alþingi frv. sem hindrar í raun og veru að menn sem hafa fjármagn, að fyrirtæki sem hafa fjármagn geti fjárfest í frjálsri fjölmiðlun á Íslandi og þar með einmitt skapað t.d. nýliðun og frjálsa samkeppni. Ég hreinlega skil ekki hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson þegar hann kemur upp í ræðustól og er að reyna að verja það.

Fjölbreytni og frelsi á fjölmiðlamarkaði er eitt. Eignaraðild og hvernig hún skiptist síðan, fákeppni og þess háttar, er annað. Það ættum við að vera að ræða. En mér finnst Sjálfstfl. vera að mæta sjálfum sér í dyrunum hvað eftir annað. Hann er að ganga gegn sínum fremstu hugsjónum sem hann hefur verið að boða á undanförnum árum, hugsjónum sem við í Frjálsl. berjumst fyrir, til að setja helsi á menn.