Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:44:55 (7079)

2004-04-28 22:44:55# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:44]

Mörður Árnason (andsvar):

Þetta eru fróðleg svör hjá manni sem hefur reynslu af rekstri fyrirtækja á fjölmiðlasviði, að vísu heldur vonda reynslu af ýmsum ástæðum sem eru ekki honum að kenna eða þeim öðrum sem orðið hafa illa úti í fjölmiðlarekstri á undanförnum 20 árum svo maður taki bara þann tíma sem liðinn er síðan ljósvakarekstur fór af stað.

Rétt er að beina til hans þriðju spurningunni að lokum í þessari syrpu. Hún er þessi: Man hv. þm. eftir fyrirtæki á ljósvakasviði í þessi 20 ár sem staðist hefði þau skilyrði sem sett eru í frv. sem verður til umfjöllunar eftir helgi og búið er að dreifa? Ég man eftir einu, þ.e. Útvarpi Rót sem einu sinni starfaði og ýmsir vinir mínir voru með í. Ég er ekki einu sinni viss um að útvarp KR stæðist þau skilyrði, hvað þá önnur ómerkari útvörp.