Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 17:03:40 (7207)

2004-04-29 17:03:40# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[17:03]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Ég hef setið í þingsal meira og minna í allan dag. Ég hef verið hér standandi og sitjandi og gapandi í andsvörum við nánast hvern þann sem hingað hefur komið upp (ÖS: Og gapir enn þá.) og gapi enn þá framan í hv. formann Samf.

Það sem hv. þm. sagði er bara ekki rétt. Það er búið að mótmæla öllum þeim rangfærslum sem hv. þm. apar upp eftir öðrum þeim hv. þingmönnum sem hann miðar sig við og hefur þekkingu sína eftir. Gott og vel.

Varðandi sakarkostnaðinn þá deilum við ekki sömu skoðun. Ég er þeirrar skoðunar að við rannsókn opinberra mála, þegar menn eru sakfelldir, beri þeim sjálfum að greiða þann kostnað sem til fellur. Okkur greinir þá á um það.

Af hverju er ekki miðað við 40 ár? var spurt hér. Nú erum við búin að halda margar ræður um það. (Gripið fram í.) Við höfum flutt margar ræður til að rökstyðja 24 ára regluna. Hún er rökstudd á þann veg að með því eigi að sporna við málamynda- og nauðungarhjónaböndum. Hvers vegna er miðað við 24 ár? Það er vegna þess að þeir aðilar (Gripið fram í.) sem vinna að framkvæmd þessara laga, (Gripið fram í.) þ.e. Útlendingastofnun, sýslumenn og erlendir aðilar um allar jarðir og allan heim, hafa komist að því að sérstaklega ungum konum á aldrinum 18--24 ára sé hættara við því að vera fengnar til að falbjóða sig til hjúskapar til að uppfylla annarlegar þarfir þeirra sem misbjóða þeim. Þetta er einfaldlega hinn kaldi raunveruleiki í þessum heimi. Þetta er ástæðan. Þetta er ástæðan fyrir því að það er ekki miðað við 40 ár eða 50 ár. (Gripið fram í: 25 ár.) Kannast menn mikið við að t.d. fórnarlömb mansals séu á aldrinum 50--60 ára? Auðvitað ekki. Þetta eru fyrst og fremst ungar stúlkur. Þess vegna er miðað við aldurinn 18--24 ára.