Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 19:53:37 (7229)

2004-04-29 19:53:37# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[19:53]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og fram hefur kom í máli síðasta hv. þm. stöndum við samfylkingarmenn í samgn. að þessu áliti. Með frv. á að innleiða í íslenskan rétt alþjóðlegar reglur og skuldbindingar um siglingavernd. Eins og menn þekkja hafa öryggiskröfur aukist mjög eftir 11. september 2001. Það er ekki bara í höfnum heldur á það náttúrlega líka við í flughöfnum og víðar. Öll þessi mál eru einmitt til umræðu í samgn. þessa dagana.

Sá þáttur sem við erum hér að bæta við siglingaverndina eru reglur sem okkur ber að lögleiða fyrir 1. júlí 2004. Þess vegna er áríðandi að þessi lagasetning gangi í gegn. Við fórum mjög rækilega yfir þessi mál, kölluðum mjög marga til nefndarinnar, eins og kemur fram í nefndarálitinu, og ræddum þetta mál ítarlega.

Í nefndinni kom m.a. fram að fyrirhugaðar eru ýmsar frekari breytingar í áttina að aukinni siglingavernd sem við þurfum að hafa í huga og fylgjast með á næstu árum. Reyndin er sú að við gætum lent í vandræðum ef við tökum ekki upp þessar öryggisreglur. Þar geta verið í húfi miklir viðskiptahagsmunir fyrir okkur.

Hér komu til umræðu skemmtiferðaskipin og eftirlit með þeim. Það var eitt af því sem við höfðum áhyggjur af. Við vitum náttúrlega hvernig það er, að ef aukinn kostnaður leggst ofan á ferðaþjónustuna þá gæti það haft hamlandi áhrif. Eins og komið hefur fram í umræðunni er gert ráð fyrir því að skemmtiferðaskipin annist þetta eftirlit að miklu leyti sjálf. Nú þegar hafa skemmtiferðaskipin tekið upp mjög hert eftirlit, bæði þegar farþegar fara frá borði og um borð. Við ættum því ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af því. Við ættum ekki að gera það.

Jafnframt hefur verið skoðað hvernig málum verði háttað ef skemmtiferðaskip koma að höfnum sem ekki eru eins vel búnar og Reykjavíkurhöfn, t.d. Grundarfirði. Hv. formaður nefndarinnar hefur einmitt bent á það.

Við fórum yfir orðalag og orðanotkun og komumst að þeirri niðurstöðu að skilgreina þyrfti betur orð eins og ,,vástig`` og ,,verndaryfirlýsing``. Ég tel að það hafi tekist ágætlega í þeim brtt. sem liggja fyrir um vástigið. Það er mjög mikilvægt að lög sem þessi séu skýr og komi greinilega fram hvað átt er við með vástigi 1, vástigi 2 og vástigi 3. Við fyrstu sýn gæti virst mikil hætta þegar vástig 1 er en það er skilgreining á eðlilegu ástandi. Ég tel að sú skýring komi vel fram í þessum brtt.

Við höfum tekið á ýmsum þáttum í frv. sem farið er ítarlega í með þeim brtt. sem við leggjum til. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur farið yfir þær lagfæringar í framsögu sinni og tel ég ekki ástæðu til að lengja umræðuna með því að endurtaka það. Ég býst við að aðrir nefndarmenn muni koma inn á þætti sem voru mjög til umræðu í nefndinni. En eins og komið hefur fram var málið afgreitt í sátt allra úr nefndinni og skilar sér inn í þingið með þeim brtt. sem hér eru á sérstöku þingskjali.