Siglingavernd

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 20:40:40 (7237)

2004-04-29 20:40:40# 130. lþ. 106.12 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[20:40]

Halldór Blöndal (andsvar):

Virðulegi forseti. Annað veifið þótti mér gott að heyra hvað hv. 1. þm. Reykv. n. sagði í ræðustól áðan þegar hann var að ræða um nauðsyn þess að lækka skatta. Ég sakna þess satt að segja að heyra ekki þennan tón oftar hjá hv. þm., því það er rétt sem hv. þm. sagði að við eigum að draga úr samneyslunni eins og við getum og lækka skatta. Þegar við göngum fram í því verðum við á hinn bóginn að velja hvar við viljum minnka álögurnar og þegar hv. þm. mun sjá þær tillögur sem lagðar verða fram hygg ég að hann verði okkur sammála um að betur verði að því staðið eins og við hugsum okkur að gera það en að leggja á íslenska skattgreiðendur að standa að öllu leyti undir þeim öryggisráðstöfunum sem nú er nauðsynlegt að leggja í vegna meiri hnattvæðingar.

Það var ekki út af þessu sem ég stóð upp heldur hinu að mér leiddist að heyra þann tón sem hv. þm. hefur til landbrn., sérstaklega vegna þess að þegar við vorum saman í ríkisstjórn, ég og hann, stóðum við mjög vel saman. Við höfðum skilning á því að umhverfismál og landbúnaðarmál, ég veit ekki hvort ég má segja það, eru tvílembingar til að nota orðalag Þorsteins Erlingssonar. Ég man að oft ræddum við það á síðkvöldum félagarnir að okkur þætti heldur naumt skammtað bæði til skrifstofu ráðherra landbúnaðarmála og ráðherra umhverfismála. Þess vegna var ég svolítið hissa á því þegar hann fór að tala um það nú að hann sæi eftir þeim peningum sem fara í yfirstjórn landbúnaðarmála hjá hæstv. landbrh., Guðna Ágústssyni.