Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 11:34:27 (7284)

2004-04-30 11:34:27# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[11:34]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. gerir lítið úr því að 22 gestir hafi verið fengnir á fund allshn. og fullyrðir að á þá hafi ekki verið hlustað. Þetta er bara einfaldlega ekki rétt. Ég leyfi mér að mótmæla fullyrðingum í þessa átt og vísa í það nál. sem liggur fyrir frá meiri hluta allshn. Þar kemur fram að einmitt var tekið tillit til þeirra athugasemda sem komu, þar á meðal varðandi meðferð á fölsuðum persónuskilríkjum og vegabréfum frá aðilum sem eiga undir högg að sækja og eru í raun fórnarlömb og flóttamenn en ekki glæpamenn eða fólk sem er að brjóta vísvitandi gegn lögunum. Þetta kemur allt fram í nál.

Hv. þm. lét hér líka svo margar rangfærslur flakka, t.d. um 24 ára regluna. Hvað sagði þingmaðurinn þar? Að annar hjúskaparaldur ætti að gilda um erlenda ríkisborgara en Íslendinga? Hvers lags vitleysa er þetta? Þetta er algjör þvæla. Reglan gengur út á það að fólk á aldrinum 18--24 ára getur ekki sjálfkrafa aflað sér dvalarleyfis einungis á grundvelli hjúskapar. Það þýðir ekki að þetta fólk geti ekki gift sig fyrr en það er orðið 24 ára og þaðan af síður að það geti ekki aflað sér dvalarleyfis. Það bara gerir það á öðrum forsendum, á sínum persónulegu forsendum. Ef þingmaðurinn les nál. kemur það fram að ef þetta fólk er í hjúskap á þeim tíma sem það sækir um dvalarleyfi skoðast sú hjúskaparstaða þeim til tekna við meðferð umsóknarinnar.

Það væri ástæða til að gera nánari grein fyrir enn fleiri rangfærslum sem komu fram í máli hv. þingmanns og ég mun kannski gera það síðar.