Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 15:02:12 (7320)

2004-04-30 15:02:12# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Heimurinn verður stöðugt alþjóðlegri. Samvinna þjóða verður sífellt meiri og landamærin eru alltaf að verða þýðingarminni. Í þessum breytta heimi erum við stöðugt að treysta stöðu þjóðanna með því að deila með þeim fullveldinu. Það er stundum sagt að það sé undirstaða sérhverrar sjálfstæðrar þjóðar að hafa óskert fullveldi. Í nútímanum horfir málið öðruvísi við. Þá verður sjálfstæði þjóðar því meira sem hún á nánari samvinnu við vinsamlegar þjóðir á sviðum viðskipta og menningar. Til að það sé hægt að gera samninga um slíkt þurfum við alltaf með einhverjum hætti að deila með þeim valdi. Allir alþjóðasamningar fela í reynd í sér einhvers konar deilingu á valdi og deilingu á fullveldi. Fullvalda þjóðir treysta fullveldi sitt með því að deila því. Þetta er undirstaðan að farsælli utanríkisstefnu Íslendinga.

Við höfum á liðinni öld deilt með öðrum þjóðum mjög mikilvægum þáttum í fullveldi okkar. Ég nefni tvennt sérstaklega. Við finnum til mikils skyldleika við aðrar Norðurlandaþjóðir og höfum reynt að rækta sambandið við þær eins og kostur er. Það höfum við t.d. gert með því að leyfa fyrir lifandis löngu frjálsa för norræns vinnuafls til Íslands. Um leið höfum við selt af höndum okkar vald Íslendinga og íslensku ríkisstjórnarinnar til að stjórna því með hvaða hætti íbúar Norðurlanda koma hingað til þess að sækja vinnu og að lokum að festa hér rætur og verða þegnar landsins.

Á móti höfum við hins vegar fengið framsal af þeirra hálfu. Íslendingar hafa með sama hætti getað farið og selt vinnuafl sitt innan vébanda þessara þjóða. Þetta hefur verið öllum til hagsbóta en það liggur fyrir að í krafti þessa fyrirkomulags hafa þessi ríki verið að framselja hvert öðru hluta af fullveldinu, þó lítill sé. En í reynd hafa þær styrkt stöðu sína og þar með fullveldi sjálfstæðrar þjóðar.

Annað höfum líka gert á liðinni öld sem hefur verið hornsteinn í utanríkisstefnu okkar. Það var að samþykkja aðild að Atlantshafsbandalaginu og í framhaldi af því gerðum við tvíhliða samning milli okkar og Bandaríkjanna um það sem er jafnan einn af burðarásunum í fullveldi sérhverrar þjóðar, sem eru varnirnar. Við gerðum þetta á sínum tíma þótt umdeilt væri. Það var niðurstaða þeirra sem fóru þá með meiri hluta að með því að framselja fullveldið með þessum hætti værum við í reynd að styrkja fullveldi þjóðarinnar þegar litið væri á það út frá breiðara sjónarhorni og til langs tíma. Þetta kann að hljóma þverstæðukennt en þetta er eigi að síður grunnurinn í samskiptum þjóða í dag. Þau deila fullveldi sínu.

Við höfum átt stjórnarskrárlegan kost á að gera þetta vegna þess að í 21. gr. stjórnarskrárinnar er heimild til handa forseta og ríkisstjórnar í umboði hans til að gera milliríkjasamninga. Þetta ákvæði hefur verið talið nægja til að heimila ríkisstjórn að gera alþjóðlega samninga fyrir hönd Íslands. Þó leggur þetta tiltekna ákvæði stjórnarskrárinnar ákveðnar hömlur á möguleika framkvæmdarvaldsins hverju sinni. Ef um er að ræða einhvers konar kvaðir sem lagðar eru á land eða landhelgi þarf sérstakt samþykki Alþingis. Þetta ákvæði hefur hins vegar verið óbreytt og á sama tíma hafa Íslendingar þurft að framselja vald sitt í ríkari mæli í gegnum alþjóðlega samninga.

Sá samningur sem hér er um að ræða og þessi tillaga tengist er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Á sínum tíma, eins og hv. flutningsmaður Katrín Júlíusdóttir rakti og fleiri hafa gert að umræðuefni, var það álitamál hvort framsalið sem í þeim samningi fólst stæðist umrætt ákvæði stjórnarskrárinnar. Nefnd lagaspekinga sem fór höndum um þetta og skoðaði djúpt á sínum tíma komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri verjanlegt. Það var orðað þannig af hennar hálfu að þetta væri á gráu svæði. Það þýðir að það var ekki mikið þanþol eftir í stjórnarskránni ef samningurinn þróaðist með þeim hætti að um frekara valdaframsal væri að ræða.

Við samþykktum EES-samninginn og það framsal fullveldis sem í honum fólst miðað við ákveðna stöðu. Á þeim tíma sáum við ekki fyrir að hugsanlega kynni samningurinn að breytast vegna breytinga á innviðum Evrópusambandsins með þeim hætti að um vaxandi framsal á valdi yrði að ræða. Það hefur samt sem áður gerst. Breytingarnar innan Evrópusambandsins hafa verið margþættar en það sem ég held að hafi skipt langmestu máli er breyting á möguleikum okkar. Annars vegar höfum við ekki sömu tækifæri til að koma fram sjónarmiðum við samningu lagagerninga. Hins vegar ber að líta til túlkunar sem Hæstiréttur hefur lagt í dóma EFTA-dómstólsins sem hafa lagt aðrar kvaðir á íslenska ríkið og fært Íslendingum annan rétt en við sáum fyrir þegar samningurinn var gerður.

Svo ég víki að fyrra atriðinu, frú forseti, þá fékk Evrópuþingið, eins og ég hef lítillega rakið fyrr í dag, ríkari völd til að hafa áhrif og reyndar meira vald til að hafa endanleg áhrif á lagagerninga sem upphaflega voru smíðaðir af framkvæmdastjórninni en áður var. Aðkoma okkar, samkvæmt samningnum, er einvörðungu í gegnum sérfræðinganefndir sem heyra undir framkvæmdastjórnina.

Þegar Evrópuþingið fékk þetta aukna vald kom upp sú staða að hugsanlega gæti orðið ágreiningur milli framkvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingsins. Reyndin hefur sýnt að svo er. Þá var búið til sérstakt samráðsferli eða ,,co-decision process`` sem fól í sér að reynt var að ná samkomulagi milli framkvæmdastjórnarinnar, þar sem við höfðum þessa takmörkuðu aðkomu og hins vegar Evrópuþingsins þar sem við höfðum enga aðkomu. En samkvæmt breytingum á innviðum Evrópusambandsins er það þannig að ef Evrópuþingið hefur á endanum aðra afstöðu en framkvæmdastjórnin þá ræður hún, með öðrum orðum getur lagagerningurinn orðið allt öðruvísi en til var stofnað.

Þetta þýðir að það hefur augljóslega skapast möguleiki á mjög umfangsmikilli kröfu á framsal fullveldis af okkar hálfu. Það er reyndin í dag. Þetta gerir það að verkum, að ég tel, að stjórnarskráin þoli ekki lengur samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þess vegna þurfum við að breyta stjórnarskránni að mínu viti.

Tillaga hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur tengist tillögu sem Samf. lagði fram sem fyrsta þingmál á þessum vetri. Þar var gert ráð fyrir því að sett yrði nefnd til að gera tillögur að stjórnarskránni, m.a. breytingu á 21. greininni, til að hún mundi rúma þessa eðlisbreytingu á afstöðu EES-samningsins til stjórnarskrárinnar. Menn hafa hins vegar ekki verið á eitt sáttir um það og þess vegna er tillagan fram komin, til að hægt sé með hlutlausum hætti að ganga úr skugga um hvort svo sé.