Afgreiðsla mála úr nefndum

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:39:12 (7348)

2004-05-03 15:39:12# 130. lþ. 108.94 fundur 527#B afgreiðsla mála úr nefndum# (um fundarstjórn), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég heyri að hv. þingmenn eru að væna mig um að ég vilji standa ólýðræðislega að málum. Það er auðvitað mjög alvarleg ásökun á forseta. En ég vil minna hv. þingmann á að t.d. meðan Gunnar Thoroddsen var forsrh. var stjórnarmeirihlutinn þá iðulega í minni hluta í fjárhags- og viðskiptanefnd neðri deildar og ég man ekki eftir því í eitt einsta sinn að meiri hluti þeirrar nefndar hafi reynt að standa gegn því að umdeild stjórnarfrumvörp ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens kæmust til 2. umr. í þinginu heldur var almennt litið svo á að meiri hluti þingsins og ríkisstjórnin hlytu að fá sín mál til 2. umr. þó svo hafi staðið á að í þeirri nefnd væru stjórnarandstæðingar í meiri hluta, enda er það þingið sjálft sem á að skera úr um afgreiðslu mála að lokum en ekki einstakar nefndir. Ég er algerlega sammála því sem hv. þm. sagði að það er hér í þessari deild, í þessu herbergi hér, sem úrslit mála eiga að ráðast. Ef svo fer að forseti tekur ákvörðun um að mál skuli tekið á dagskrá þá getur hann eftir atvikum sett það undir úrskurð þingsins hvort við því skuli orðið og það á við í þessu tilviki.

Það er alveg ástæðulaust af hv. þingmönnum að gefa það til kynna að ég vilji aðhyllast ólýðræðisleg vinnubrögð í mínum störfum (Gripið fram í: Ég sagði ekki ...) enda er það svo að ég varð mjög vel við því þegar til mín var leitað og við formaður efh.- og viðskn., Pétur H. Blöndal, áttum tal saman, og hann sömuleiðis, að orðið yrði við beiðni stjórnarandstöðunnar í þessu máli og það liggur fyrir.