Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 20:54:18 (7443)

2004-05-03 20:54:18# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[20:54]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Nú ber illa við. Áðan var verið að bera fákeppni á fyrirtækjamarkaði saman við úrslit kosninga. (SigurjÞ: Nei.) Nú er völlurinn stækkaður og farið að tala um kosningasjóði og mér ætlað að svara því á innan við einni mínútu.

Hafi hv. þm. ekki áttað sig á því, af því að hann spurði hvort ég teldi að Sjálfstfl. hefði ekki haft áhrif þann tíma sem hann hefur stjórnað menntmrn., þá held ég að menn séu almennt í stjórnmálum til að hafa áhrif. Ég geri ráð fyrir að hæstv. forsrh. stæði ekki á sama ef Sjálfstfl. hefði engin áhrif haft á þróun menntamála síðustu árin. Til þess eru menn í stjórnmálum.

Það kann vel að vera að hv. þm. sé í stjórnmálum til að hafa engin áhrif en koma bara upp annað slagið og rífa kjaft, eins og það heitir á góðri íslensku.

En af því að hv. þm. vísar í Evrópuráðið þá vil ég að það komi fram að ég er mjög stoltur af því að þetta frv. byggir á skýrslu fjölmiðlanefndar sem hefur skírskotun í Evrópuráðið. Ég er stoltur af því að taka þátt í vinnu sem byggir á samþykktum Evrópuráðsins.