Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 23:25:36 (7491)

2004-05-03 23:25:36# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KJúl
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[23:25]

Katrín Júlíusdóttir:

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að segja að ef þessi ríkisstjórn er flink í einhverju þá er hún reglulega flink í að kveikja elda. Nú logar enn eitt ófriðarbálið sem kveikt hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Heimurinn hefur enn á ný verið málaður svart/hvítum litum og með eða á móti pólitík ræður hér allri för. Þetta kom skýrt fram í framsögu hæstv. forsrh. þegar hann kallaði hv. þingmenn, sem hafa lýst sig andvíga frv. hans, sérstaka blaðafulltrúa ákveðinna fyrirtækja í þessu landi. Það er óþolandi að sitja undir svona ávirðingum ef maður er ekki sammála hæstv. forsrh. Að sama skapi virðist það orðið hegðunarmynstur hjá þessari ríkisstjórn að troða í gegnum þingið mikilvægum málum á síðustu dögum í krafti meiri hlutans án nægjanlegrar umræðu. Þetta eru óþolandi vinnubrögð. Helst mætti ætla að ríkisstjórnin leggi hreinlega ekki í umræður um mikilvæg mál. Hún vill klára málin áður en umræða þroskast. Þetta er eins og að rífa upp ræturnar áður en uppskeran hefur svo mikið sem gægst upp úr moldinni. Hins vegar gæti verið að ríkisstjórnin sé hreinlega orðin það vön völdunum að henni standi nákvæmlega á sama um viðhorf fólks.

Hvaða aðrar ástæður geta verið fyrir því að þegar svo umfangsmikil skýrsla, sem fjölmiðlaskýrsla menntmrh. er, er lögð fram þá komi fram. frv. á sama tíma sem á að byggja á henni? Þannig er slökkt á vitrænni umræðu um skýrsluna sjálfa. Þetta segir mér að ríkisstjórnin hafi ekki nokkurt samráð í huga og hafi ekki nokkurn vilja til samræðu um þetta mál. Vinnubrögðin hingað til bera þess a.m.k. ekki merki.

En það logar ekki bara ófriðarbál vegna þessara vinnubragða innan veggja Alþingis heldur berast mótmæli og hafa borist undanfarna viku frá ýmsum hagsmuna- og stjórnmálasamtökum. Ástæðan er m.a. sú að ekki var haft samráð við þá aðila við samningu frv. Þeir hafa nú sent frá sér mótmæli og nægir þar að nefna samtök á borð við Samtök auglýsenda og Blaðamannafélagið. Þetta eru engin vinnubrögð þegar um svo afdrifaríkt frumvarp er að ræða. Ég segi afdrifaríkt, vegna þess að við vitum að það mun aðallega snerta eitt fyrirtæki á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem heitir Norðurljós, fyrirtæki með um 2.000 starfsmenn. Frv. hefur gríðarleg áhrif á afkomu og líf fólks.

Af lestri skýrslunnar er ljóst að staða Ríkisútvarpsins er afar sterk á ljósvakasviðinu. Það ánægjuefni. RÚV er risi á þessum markaði, með 43% hlutdeild í sjónvarpi og 52% hlutdeild í útvarpi, auk þess að reka einn mest sótta vefmiðil í landinu. Hér er því um að ræða restina af þeirri köku sem til skipta kemur á hinum frjálsa markaði þegar ríkið hefur tekið sinn bita. Í þessu sambandi er einnig vert að benda á að ekki er snert við netmiðlum né sjónvarpsstöðvum þeim sem Landssíminn er með á sínum snærum í gegnum breiðbandið. Ekki er heldur gert ráð fyrir sjónvarpi sem sent er í gegnum gervihnött frá sendum úti í heimi, hvað þá stafrænum pökkum sem hægt er að senda gegnum netið. Slíkur er flýtirinn í öllu þessu máli við að brjóta upp fjölmiðlafyrirtækið Norðurljós eins og það er nú að það er ekki litið heildrænt á málin, nema þá menn átti sig hreinlega ekki á því að það eru til fleiri leiðir til að senda út og gefa út lifandi efni en sjónvarps- og útvarpsbylgjur á tímum nýrrar tækni.

Virðulegi forseti. Afleiðingar þessa frv. tel ég að verði margar og ekki síður hætturnar, sem ég tel að verði allnokkrar. Þær eru fyrirsjáanlegar og ég vil nefna nokkrar þeirra.

Í fyrsta lagi má gera ráð fyrir að fjölmiðlarekstur verði mun erfiðari og fjölmiðlar á hinum frjálsa markaði verði fjársveltir vegna þeirra miklu takmarkana á fjármögnunarleiðir sem settar eru í frv. Þetta veldur mér áhyggjum vegna þess að ég tel fjársvelta fjölmiðla verri en enga. Ritstjórnarlegt frelsi er betur tryggt með kínamúr, alvöru kínamúr á milli fjármagns og ritstjórna, sem hætt er við að verði ansi þokukenndur hangi fjölmiðill á horriminni.

[23:30]

Í öðru lagi tel ég að fjölmiðlaflóran verði einsleitari á ný og minna í boði á okkar litla markaði. Þetta getur haft mikil áhrif á fjölbreytileikann í menningu og afþreyingu. Íslensk dagskrárgerð hefur verið afar fjölbreytt á undanförnum árum og þá ekki síður hjá hinum frjálsu sjónvarpsstöðvum en hjá Ríkisútvarpinu. Hef ég verulegar áhyggjur af því að íslensk dagskrárgerð og afþreying muni koma afar illa út úr þessu og fjölbreytileikanum þannig stefnt í hættu.

Í þessu samhengi verður einnig að minna á að mælingar benda til aukinnar notkunar á fjölmiðlum og aukinnar lesningar dagblaða. Það er ekki merki um einsleitni að mínu mati, öllu heldur um meira og fjölbreyttara framboð á þessum markaði. Þessu á að fagna í okkar lýðræðislega samfélagi, ekki setja lög á það. Fleiri virðast komast í miðlana og væri ráð, áður en svona lög eru samþykkt og fullyrðingum haldið fram um að hér ríki einsleitni, að hreinlega yrði gerð úttekt á því hversu margir Íslendingar ár hvert komast með sín mál í fjölmiðla og það verði tekið saman.

Fullyrðingum um að hér sé ekki fjölbreytni ráðandi verða að fylgja mælingar en ekki persónulegt mat. Samhliða þessu er einnig hætta á að með þessu frv. sé verið að minnka farmboð eftirsóknarverðra starfa fyrir blaðamenn, tæknifólk, dagskrárgerðarmenn og fleiri sem starfa við þennan iðnað. Þetta er stór iðnaður.

Í þriðja lagi má alls ekki gleyma því að bak við þessi fyrirtæki er fjöldinn allur af fólki og fjölskyldum. Sú tala hleypur á hundruðum. Við erum að tala um fjölskyldur sem eiga allt sitt undir störfum hjá þessu fyrirtæki. Störf þeirra eru nú í uppnámi. Þetta snýst nefnilega líka um afkomu fólks og fjölskyldna þess. Því megum við ekki gleyma í öllum þessum flýti og öllu þessu hanaati sem hér hefur átt sér stað.

Ég hef sérstaklega hoggið eftir því að þegar þingmenn Sjálfstfl. koma fram í fjölmiðlum, sérstaklega í síðustu viku, hamra þeir á því að þessi lög verði sett vegna samfélagslegra hagsmuna. Þá get ég ekki annað en spurt mig: Í hvaða samfélagi búa þeir eiginlega? Það að koma hundruðum eða þúsundum starfa í uppnám hjá einni stétt atvinnulífsins eins og nú er gert get ég ekki séð að feli í sér neina samfélagslega hagsmuni né séu það samfélagslegir hagsmunir að vega að starfsheiðri manna eins og gert hefur verið í þessari umræðu af hálfu stjórnarliðsins.

Í fjórða lagi, síðasta en ekki sísta, finnst mér undarlegast að í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um þessi mál af hálfu stjórnarliða er allt kapp lagt á að drífa sig að brjóta upp og banna með lagasetningu eignarhald stærstu fyrirtækja landsins í fjölmiðlun en ekki einu einasta orði minnst á gagnsæi eignarhalds. Gagnsæið er miklum mun mikilvægara en lagasetning á borð við þá sem ríkisstjórnin hefur hér lagt fram.

Þingmenn Samf. hafa lagt fram þáltill. á þessu þingi sem lýtur að því að auka gagnsæi á eignarhaldi á fjölmiðlum til að skapa traust milli neytenda og fjölmiðlanna. Neytandinn er skynsamur, frú forseti, og lætur ekki bjóða sér fréttir sem bornar eru fram af eigendum fjölmiðlanna. Neytandinn sér í gegnum slíkt. Neytandinn mun þannig tryggja hið ritstjórnarlega frelsi. Neytandinn er gagnrýninn en með þessari aðgerð er ekkert slíkt gagnsæi tryggt, þvert á móti er aukin hætta á því að fjármagnið verði neðan jarðar og komi með krókaleiðum yfir landamæri vegna þess að óeðlilegar hömlur eru settar á markaðinn. Það er því mikil hætta á því að ekki verði nægilega ljóst fyrir neytandann hverjir eigi miðlana og við getum ekki viljað neðanjarðareignarhald það sem þetta frv. getur mögulega leitt af sér.

Virðulegi forseti. Við höfum margar vísbendingar um að þessi lög séu til komin vegna sárinda og gremju hæstv. forsrh. út í einstaka eigendur Norðurljósa. Hefur þetta birst með ýmsum hætti, bæði úr þessum stóli hér og í fjölmiðlum undanfarið. Í síðustu viku sagði hæstv. forsrh. við fjölmiðlamenn að fréttamenn á fréttamiðlum Norðurljósa hefðu ekkert frelsi og að þeir gengju algjörlega og eingöngu erinda eigendanna.

Frú forseti. Þetta eru stór orð sögð um fjölda manns og þarna finnst mér harkalega vegið að blaðamönnum.

Miðað við ræðu hæstv. félmrh. fyrir helgi í umræðum um fjölmiðlaskýrsluna virðist hann líka vera býsn fúll út í fréttaflutning ákveðinna miðla í þeirra eigu. Hann veifaði hér Dagblaðinu og gekk svo langt að fullyrða að blaðamenn semdu ekki fyrirsagnir á fréttum sínum. Ég spyr: Hvað hefur hann eiginlega fyrir sér í því? Ég átta mig ekki á því, en þetta er álíka málefnaleg fullyrðing og ef ég héldi því hér fram að ríkisstjórnin stýrði uppslætti á Ríkisútvarpinu. Í reynd má spegla rök stjórnarliðsins um hlutdrægan málflutning frjálsu fjölmiðlanna á Ríkisútvarpið sem lýtur meirihlutastjórn ríkisstjórnarflokkanna. En mér dettur það ekki í hug vegna þess ég tel blaðamenn almennt faglega, hvort sem þeir starfa hjá ríkinu eða öðrum miðlum.

Virðulegi forseti. Mér finnst svona málflutningur ekki boðlegur. Ég skil samt að ráðherrarnir séu stundum súrir út í umfjöllun einstakra fjölmiðla eins og t.d. DV. Sjálf hef ég lent í þeim. Eins og kannski einhverjir muna birtist rætinn pistill um mig á milli jóla og nýárs í því blaði þar sem ég var uppnefnd og reynt að gera mig tortryggilega í starfi mínu. Ekki hvarflaði að mér eina mínútu að þessi pistill væri skrifaður vegna þess að Jón Ásgeir, Jóhannes í Bónus eða einhver annar ætti eitthvað sökótt við mig, þar með væri eitthvert stórkostlegt plott á bak við, annað en það að maður er opinber persóna og gefur blaðamönnum færi á sér. Ekki hvarflaði að mér sú hugsun, ekki eina einustu sekúndu, hvað þá mínútu, að á slíka menn þyrfti þess vegna að setja lög. Ég hef greinilega ekki eins frjótt ímyndunarafl og hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og þessi ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Það þarf ríkar ástæður til að grípa inn í markaðinn með svo afgerandi hætti, á slíkum hraða og án alls samráðs við þá sem málið snertir. Ég tel að fórnarkostnaður þessa frv. sé allt of hár og hann geti haft áhrif á störf fjölda manna og gert fjölmiðlamarkaðinn einsleitan eins og hann var á árum áður þegar það eina sem var í boði á sunnudögum var Húsið á sléttunni. Hér er gengið of nálægt tjáningarfrelsinu, virðulegi forseti. Hér gengur ríkisvaldið allt of langt. Það er mikilvægt að stíga varlega til jarðar, það eru nefnilega mörg hundruð störf undir og við skulum ekki gleyma því í þessari umræðu.