2004-05-04 01:11:09# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:11]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Nákvæmlega. Það liggur fyrir þinginu skýrsla sem er á margan hátt ágæt, ég get tekið undir það, þó hún sé alls ekki gallalaus. Það liggur fyrir þinginu skýrsla sem ætti einmitt að vera grundvöllur til vitrænnar umræðu, ekki bara á hinu háa Alþingi meðal hv. þm., heldur líka úti í þjóðfélaginu. Hversu margir landsmenn skyldu hafa fengið tækifæri til þess að kynna sér skýrsluna? Hverjir hafa séð skýrsluna fyrir utan þá sem sitja í sal hins háa Alþingis? Það eru því miður ekki margir. Ég held einmitt að skýrslan gæti orðið grundvöllur til vandaðrar umræðu í sumar sem við gætum byggt á vandaða lagasetningu. Hv. þm. Páll Magnússon hlýtur að hafa tekið eftir því að menn hafa bent á ótal galla á frv., ótal leiðir til að fara fram hjá því og skrumskæla það á allan mögulegan hátt. Það á ekki að vera hlutverk okkar á hinu háa Alþingi að setja lög sem hægt er að skrumskæla.