2004-05-04 01:23:49# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[25:23]

Páll Magnússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að núgildandi samkeppnislög veiti samkeppnisyfirvöldum vart heimild til að brjóta upp markaðsráðandi fyrirtæki, enda var hv. þm. einmitt að benda á það í þingræðunni fyrir um tveimur árum að slíkt ákvæði þyrfti að binda í lög. Það er greinilegt að hann er enn þeirrar skoðunar að binda þurfi slík ákvæði í lögin.

Hins vegar er ekki sjálfgefið að það eigi að fjalla um fjölmiðlamarkaðinn í samkeppnislögunum. Fjölmiðlamarkaðurinn er mjög sérstæður. Það hefur ítrekað komið fram í umræðum í dag og kemur fram í skýrslunni. Það kemur einnig fram í tilmælum Evrópuráðsins sem hv. þm. ætti að þekkja. Þess vegna tel ég heppilegra að binda í önnur lög en samkeppnislögin ákvæði um eignarhald fjölmiða.