Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 10:41:12 (7563)

2004-05-04 10:41:12# 130. lþ. 109.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[10:41]

Björgvin G. Sigurðsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir þá sjálfsögðu ósk hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að málið komi til menntmn. til umfjöllunar. Það byggir að sögn flutningsmanna á skýrslu þeirri sem nefnd á vegum menntmrh. vann fyrir skemmstu um stöðuna á fjölmiðlamarkaðnum. Það plagg liggur til grundvallar því lagafrv. sem hér er til umræðu, eins og ítrekað kom fram í þeirri löngu umræðu sem stóð fram á nótt, þótt mörgum kunni að þykja undarlegt að frv. sem hér er til umræðu byggi á þeirri skýrslu, enda laut hún að mörgu leyti að öðrum málum.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að þetta mál gangi til menntmn. Það lýtur fyrst og fremst að fjölmiðlum í landinu og stöðu þeirra, útvarpsleyfaveitingu og fleiri slíkum málum þannig að það er undarlegt í hæsta máta að málið gangi ekki til menntmn. til umfjöllunar. Því er það sjálfsögð og eðlileg ósk sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að málið komi þar til efnislegrar umfjöllunar. Málið lýtur að grundvallarþáttum íslensks samfélags, sjálfri lýðræðislegu umræðunni og fjölmiðlaumhverfi okkar. Því tek ég undir þá sjálfsögðu ósk og skora á þingið að hleypa málinu þangað til umfjöllunar og efnislegrar umræðu á næstu vikum.