Lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:03:47 (7576)

2004-05-04 14:03:47# 130. lþ. 109.95 fundur 535#B lokun Kísiliðjunnar við Mývatn og framtíðarhorfur# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka umræðuna og hv. frummælanda, Halldóri Blöndal, fyrir að taka málið upp vegna þess að mér finnst ástæða til að það sé rætt.

Ég kom ekkert smeyk til þessarar umræðu vegna þess að ég tel að vel hafi verið haldið á málum hvað varðar kísilduftverksmiðjuna og Kísiliðjuna sem nú fer að syngja sitt síðasta. En málið er að það skipti máli á þeim tíma þegar ljóst varð að hún ætti ekki framtíð fyrir sér að annar iðnaðarkostur væri inni í umræðunni og það er sá kostur sem við treystum á og það styttist í niðurstöðu í því máli.

Ég vil segja með fullri virðingu fyrir hv. þm. Kristjáni Möller að ég gef lítið fyrir slík yfirboð eins og komu fram í ræðu hans. Hv. þm., sem kemur úr flokki sem aðhyllist samræðupólitík, ekki athafnir og ekki framkvæmdir heldur bara að tala um málin, ætti ekki að koma fram með þeim hætti sem hann gerði áðan í ræðustól. Það er ekki hægt, ekki síst þegar verið er að vinna af fullum krafti að því að leysa þessi mál og það veit hv. þm. mjög vel vegna þess að við höfum átt fundi um það áður.

Spurt er: Hvað er hægt að gera? Hvað geta opinberir aðilar gert? Ég fór yfir það í ræðu minni áðan hvað opinberir aðilar hafa gert og ýmsum finnst það bara vera dálítið mikið og ég heyrði hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ýja að því. Það er heilmikið að vilja setja 200 millj. í hlutafé í þessa verksmiðju og það skipti sköpum, vil ég meina, á því stigi sem sú ákvörðun var tekin.

Við erum að sjá stórskemmtilegt fyrirtæki rísa eins og Baðfélagið og sú starfsemi verður opnuð eftir nokkrar vikur. Það er því, guði sé lof, margt jákvætt að gerast en ég tek undir með hv. þm. hvað það varðar að kísilduftverksmiðjan skiptir gríðarlega miklu máli.