Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:51:16 (7584)

2004-05-04 14:51:16# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að eftirlitsiðnaðurinn fer mjög vaxandi með þessu frumvarpi og færast munu til ýmis störf sem beinlínis snúa að eftirliti og eftirfylgni samkvæmt frumvarpinu sem tekur til skipaverndar, hafnaverndar og farmverndar. Öll þessi atriði kalla á eftirlit.

Líka er rétt að vekja athygli á öðru atriði sem mun breytast varðandi okkur íslenska þegna. Við munum ekki lengur hafa frjálsan aðgang að höfnum sem við oft höfum haft hingað til. Einkum á þetta auðvitað við þar sem skip koma erlendis frá og eru yfir 500 brúttólestir, farþegaskip t.d. Við höfum getað labbað hér niður á garð í Reykjavíkurhöfn eða höfnina vestur á Ísafirði, rölt þar alveg niður að skipshlið og skoðað og velt fyrir okkur erlendum skipum og fólki sem þar er að koma í land. Það mun ekki verða svo framvegis. Fólkið verður girt af og við stöndum fyrir utan.