Sprengjuleit

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:17:01 (7653)

2004-05-05 14:17:01# 130. lþ. 110.2 fundur 911. mál: #A sprengjuleit# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Heldur voru þau tilþrifalítil, svörin hjá hæstv. utanrrh. við þessu grafalvarlega máli þar sem um er að ræða æfingasvæði varnarliðsins í Vatnsleysustrandarhreppi. Fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, Jóns Gunnarssonar, að 600 sprengjur hefðu fundist þarna árið 1996 og mætti ætla að stórstyrjöld hefði geisað á svæðinu á þessum ímyndaða vígvelli bandaríska varnarliðsins. Ábyrgðin er skýlaust íslenska ríkisins að hreinsa upp svæðið og er slóðaskapurinn alveg með ólíkindum. Hérna er rekið á eftir því og hvatt til þess að hæstv. utanrrh. beiti sér fyrir því að íslenska ríkið taki sig til og setji í þetta það fjármagn og þann kraft sem þarf til að hreinsa upp svæðið og varna því að börn og aðrir vegfarendur verði fyrir stórskaða, enda er hér um að ræða svæði sem er þakið af sprengjum og öðrum stórhættulegum hlutum. Því er ástæða til að skora á hæstv. ráðherra að reka hressilega á eftir þessu máli.