Tæknimenntun

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:28:33 (7659)

2004-05-05 14:28:33# 130. lþ. 110.3 fundur 617. mál: #A tæknimenntun# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:28]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um það hversu margir hafi lokið tæknimenntun á háskólastigi á Íslandi vil ég geta þess að það var leitað til Tækniháskóla Íslands varðandi svar við spurningunni og spurt hversu margir hefðu útskrifast úr tæknifræði frá upphafi.

Samkvæmt svörum skólans hafa 443 nemendur lokið námi í byggingartæknifræði frá skólanum frá því að kennsla í byggingartæknifræði hófst árið 1971 en það var fyrsta kennslugrein skólans á tæknisviði. Nám í iðnaðartæknifræði hófst síðan 1991 og hefur 121 nemandi lokið því námi. Frá því að tekið var að kenna upplýsingatæknifræði árið 1998 hafa 13 nemendur lokið því námi. Nýjasta viðbót við námsframboð Tækniháskólans er vél- og orkutæknifræði sem tekin var upp árið 2003 og hafa nú þegar 30 útskrifast úr því námi. Alls hafa því 607 nemendur útskrifast með próf í tæknifræði frá Tækniháskólanum.

Samkvæmt upplýsingum Háskóla Íslands útskrifuðust 627 nemendur úr verkfræði- og raunvísindadeild frá árinu 1982 þar til deildinni var skipt í verkfræðideild annars vegar og raunvísindadeild hins vegar árið 1987. Frá því ári hefur 1051 nemandi verið útskrifaður úr verkfræðideildinni en 1867 nemendur hafa verið útskrifaðir úr raunvísindadeild frá árinu 1987.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Er til skoðunar að rýmka heimildir Tækniháskóla Íslands til að taka inn nemendur til að svara eftirspurn nemenda og atvinnulífs eftir tæknimenntun?

Í samningi sem er milli menntmrn. og Tækniháskóla Íslands sem kemur til með að gilda til næstu þriggja ára kemur fram að fjárveitingar til Tækniháskólans byggja á reglum frá árinu 1999 um fjárveitingar til háskóla og einnig að ráðuneytið muni hafa til hliðsjónar áætlun skólans til næstu fimm ára sem og stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

Í fjárlagafrv. ársins 2004 er gert ráð fyrir að fjárframlög til háskólastigsins aukist um 4% á milli ára næstu þrjú árin, þ.e. til ársins 2007. Byggir sú spá á mannfjöldaspá Hagstofunnar um fækkun í árgöngum 20--24 ára og jafnframt er tekið mið af þeirri þróun síðustu ára að stærra hlutfall hvers árgangs fari í háskóla.