Tæknimenntun

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:31:30 (7660)

2004-05-05 14:31:30# 130. lþ. 110.3 fundur 617. mál: #A tæknimenntun# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda er ákaflega mikilvægt að við leggjum meira til í tæknimenntun hvers konar. Galdurinn margfrægi að baki þess mikla uppgangs sem hefur verið að baki finnskum iðnaði og finnskri hátækni er að þeir réðust í stórbrotnar fjárfestingar gagngert í tæknimenntun til að keyra upp þetta stig atvinnulífsins. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Finnar eru stórveldi í hátækni og tækni hvers konar í dag. Mjög mikilvægt er að við fjárfestum, eins og þeir, mjög duglega í þessari menntun enda kom fram að framlög okkar eru helmingi lægri en þeirra til tæknimenntunar. Það var dapurlegt að heyra að hæstv. menntmrh. skyldi ekki taka hressilega undir og lýsa því yfir að við mundum gera þetta, stefna að því á næstu árum að rýmka heimildir til inntöku í Tækniháskólann og efla þetta menntastig verulega. Því sjónarmiði var því miður ekki til að dreifa.