Tæknimenntun

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 14:34:06 (7662)

2004-05-05 14:34:06# 130. lþ. 110.3 fundur 617. mál: #A tæknimenntun# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KJúl
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir):

Virðulegi forseti. Spurningu minni um það hvort til skoðunar væri að rýmka heimildir Tækniháskóla Íslands til að taka inn nemendur til að svara eftirspurn nemenda og atvinnulífsins eftir tæknimenntun var í rauninni svarað með neii. Ég tók því þannig þar sem hæstv. menntmrh. vísaði í gerða hluti en ég var ekki að spyrja um þá heldur spurði ég um framtíðarsýn, hvort það væri eitthvað til skoðunar og hvort stefna ríkisstjórnarinnar væri að auka veg og virðingu tæknimenntunar.

Ég spyr vegna þess að ég tel mikilvægt að byggja upp tæknimenntun á háskólastigi og að það verði best gert með því að nýta þann glæsilega háskóla sem við eigum í Tækniháskólanum. Til þess að svo megi verða þarf að auka heimildir Tækniháskólans til þess að taka inn nemendur og rýmka þær að einhverju eða verulegu leyti til frambúðar.

Eins og aðrir háskólar verður Tækniháskólinn að geta treyst fjárveitingavaldinu þegar gerðar eru áætlanir, treyst því að samningar standi og að fé fylgi samningum og heimildum til inntöku nemenda.

Við höfum lengi staðið nágrannaþjóðum okkar að baki í þessum efnum og gerum enn. Það er því mín skoðun að við eigum að taka á þessu máli í eitt skipti fyrir öll, og það myndarlega vegna þess að við vitum að eftirspurnin er svo sannarlega til staðar í atvinnulífinu. Að sama skapi vil ég koma því að að mér finnst þetta líka tengjast að ákveðnu leyti heildarmenntastefnu þessarar ríkisstjórnar. Ég tel að meiri sveigjanleika vanti í menntakerfið til þess að bregðast við þörfum atvinnulífsins á hverjum tíma. Takmarkanir á inngöngu nemenda geta reynst okkur dýrar og núna tel ég að klukkan tifi í þessum efnum, þegar kemur að tæknimenntuninni, og að með einhverjum hætti verði að leysa slíkar takmarkanir, losa um böndin og gera kerfið sveigjanlegra.