Forvarnastarf í áfengismálum

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:55:07 (7698)

2004-05-05 15:55:07# 130. lþ. 110.10 fundur 684. mál: #A forvarnastarf í áfengismálum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Efni fyrirspurnar minnar, sem heitir fögru nafni í forvarnarátt, er um áfengisauglýsingar. Grundvallarspurningin er auðvitað einföld, hún er: Eru áfengisauglýsingar leyfðar á Íslandi eða eru þær ekki leyfðar á Íslandi? Til er 20. gr. laga nr. 75/1998, sem bannar áfengisauglýsingar. Ég sé ekki betur, leikmannsaugum mínum, en þessi grein sé brotin nær daglega.

Síðasta dæmið, ég vek athygli heilbrrh. á því, er í blaði allra landsmanna í Morgunblaðinu á föstudaginn var, ég endurtek, á föstudaginn. Á bls. 7 er mynd af bjórglasi og augljóst hvað um er að ræða. Er þetta áfengisauglýsing? Ég spyr þingheim og ég spyr hæstv. heilbrrh.: Stenst hún ákvæði laganna? Heilbrrh. er staddur nokkrum metrum frá mér og sér væntanlega ekki hvað það er í auglýsingunni sem á að lauma henni í gegnum það nálarauga. Það er að vísu borgarhlið nú orðið. Það stendur hérna, ég vona að hæstv. heilbrrh. sjái, 0,0% með örsmáu letri í mikilli fjarlægð. Þetta er eitt dæmið. En þau eru fjölmörg, svo mörg að það tæki sennilega það sem eftir er af þingtímanum að telja þau upp. Þessi heilsíða kostar 400 þús. og er hægt að fá hana með einhverjum afslætti ef menn reyna. Menn geta rétt ímyndað sér hvort menn borga 400 þús. kr. fyrir þessa heilsíðu á föstudegi til að auglýsa áfengislausan pilsner. Það er auðvitað ekki svo. Það er auðvitað brandari að láta sér detta það í hug.

Ég hef tvisvar spurt dómsmrh. um þessa hluti á Alþingi. Ég hef ekki fengið svör frá honum um afstöðu hans til málsins, nema útúrsnúning. Hins vegar komu fróðlegar upplýsingar frá honum 31. mars þegar ég spurði hann um kærur síðustu ár. Þar kom í ljós að 37 kærur vegna þessa banns bárust lögreglu 2003, á þeim þremur árum. Aðeins tvær af 37 enduðu með dómi og ein reyndar með eins konar dómsátt, við skulum telja hana með. Þrjár af 37.

Það er auðvitað ljóst að lögregla, saksóknari, almenningur og áhugamenn um áfengisvandamálið, sem ég hitti t.d. á ráðstefnu um daginn sem boðað var til af 18 samtökum, allt frá Vímulausri æsku til Íþróttasambands Íslands, eru ekki hvattir til að kæra þessa hluti eða skipta sér af þeim. Menn vilja ekki hreyfa sig vegna þess að yfirvöld vilja hafa það þannig að þessi lög séu brotin, að í landinu séu lög sem sumir mega fylgja en aðrir ekki. Ég spyr hæstv. heilbrrh. út í þetta þeim spurningum sem sjá má á þskj. 1013.