Þjónusta sálfræðinga innan heilbrigðiskerfisins

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:17:45 (7712)

2004-05-05 18:17:45# 130. lþ. 110.12 fundur 940. mál: #A þjónusta sálfræðinga innan heilbrigðiskerfisins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JBjart
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir ágætt svar hans. Mér heyrðist á hæstv. ráðherra að eitthvert samstarf væri við félmrn., hann leiðréttir mig ef það er ekki rétt. En mig langar í þessu sambandi að leggja áherslu á þörfina fyrir samstarf við menntmrn. Það háttar svo til að þegar grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna var með reglugerð skorin niður sú þjónusta sem veitt var í grunnskólanum, sérfræði- og sálfræðiþjónusta innan grunnskólans.

Áður áttu börn, kennarar og foreldrar rétt á meðferð en með reglugerðarbreytingunni eiga þeir einungis rétt á greiningu. Mér hefur fundist menn loka augum fyrir því að þörfin minnkaði ekkert við það. Ef eitthvað hefur þörfin fyrir þjónustuna aukast síðustu árin. Þess vegna tek ég undir það með hæstv. ráðherra, að það skiptir miklu máli að þjónustan sé aðgengileg innan heilsugæslunnar sem hluti af almennri heilbrigðisþjónustu sem fólk sækir.

Ég hef rætt þetta víða og mér sýnist einsýnt að til lengri tíma litið verði af þessu sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið. Þetta leiðir til aukinnar hagkvæmni vegna þess að læknar á heilsugæslustöðvum eru ekki menntaðir til að taka á vanda sem kannski lýsir sér í líkamlegri vanlíðan en á sér félagslegar orsakir. Ég hefði talið að þetta yrði til að efla þjónustu heilsugæslustöðvanna og jafnframt að fólk geti sótt þessa þjónustu úti í bæ og notið niðurgreiðslu Tryggingastofnunar.

Ég geri mér vonir um að þjónustan verði aukin og til þess fáist fjármagn að bæta og auka þá þjónustu sem gerð hefur verið tilraun með á síðustu missirum.